143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég var að koma inn í salinn og heyrði af því að fjárlögin hefðu með óvenjulegum hætti verið tekin úr nefnd án nefndarálits. Ég man ekki eftir að slíkt hafi gerst áður og hvað þá eftir að við samþykktum núgildandi þingsköp. Þingsköpin eru skýr. Það þarf að liggja fyrir álit áður en mál er afgreitt úr nefnd þannig að hér hlýtur að liggja fyrir að málið hafi ekki verið afgreitt úr nefnd. Málið er enn til umfjöllunar í fjárlaganefnd miðað við þau þingsköp sem við búum við.

Ég held að það sé rétt að kalla eftir því að forseti hlutist til um málið og tali við formann fjárlaganefndar og óski eftir því að hún kalli nefndina aftur saman og þar verði farið yfir nefndarálit og fjallað áfram um fjárlögin.