143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur að málið er auðvitað enn í nefnd því að það hefur ekki verið afgreitt með löglegum hætti úr nefndinni eftir því sem ég best veit. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur að mikilvægt er að bæta vinnubrögðin og enn fremur tek ég eindregið undir með hv. formanni fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, og hvet til þess að forseti geri hlé á fundinum að ósk formanns fjárlaganefndar sem hér er komin (Gripið fram í.) og úrskurði um það hvort farið hafi verið að þingskapalögum. Ég tel að það sé öllum ljóst að svo er ekki. 29. gr. er ákaflega skýr og afdráttarlaus og nefndarálit meiri hlutans lá ekki fyrir þegar málið var tekið inn í þingið.

Ég hvet sem sagt til þess að forseti úrskurði eða kalli alla saman á fund í forsætisnefnd. Við í Samfylkingunni munum senda fulltrúa okkar til slíks fundar þegar í stað.