143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að mjög mikilvægt sé að við komumst í að ræða fjárlagafrumvarpið sem fyrst. Ég held að við, bara svo það sé sagt, ættum ekki að láta þessa hluti þvælast fyrir okkur. Við getum borið saman hvernig þetta hefur verið áður við hvernig þetta er núna o.s.frv., en ef það er tillaga um sátt í málinu að hv. fjárlaganefnd hittist seinna í kvöld með nefndarálit eða snemma í fyrramálið og við göngum frá þessu þá erum við í meiri hlutanum algerlega tilbúin í það. Aðalatriðið er að við þurfum að fara í fjárlagaumræðuna á föstudaginn. Það er stóra málið.

Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir talaði um að þegar við erum að vinna hratt sé hætta á mistökum og ég held að um leið og við förum í efnislega umræðu séu meiri líkur á því að við sjáum ef það er eitthvað sem betur má fara. Ég held að ekki sé góður bragur á því, hvað þá skynsamlegt, að vera að taka langa umræðu um þetta. Ef stjórnarandstaðan vill að við hittumst aftur í kvöld eða snemma í fyrramálið er það algerlega sjálfsagt.