143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[20:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekkert um hvað stjórnarandstaðan vill heldur að lögum og reglum sé fylgt. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að eðlilegt væri í þessari stöðu að nefndin kæmi saman aftur þannig að lögum væri fylgt og tillaga um nefndarálitið lægi fyrir og þar af leiðandi hefur málið ekki verið tekið út. Ég held satt að segja, þótt hér hafi verið óskað eftir úrskurði, að (Gripið fram í: Úrskurður er …) nokkuð ljóst sé að í 29. gr. laga um þingsköp stendur: „Áður en nefnd lýkur athugun máls skal liggja fyrir tillaga að nefndaráliti til afgreiðslu“. (Gripið fram í: Tillaga.) Akkúrat, tillaga, nákvæmlega eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór yfir. Eins og ég hef skilið málið hefur slíkri tillögu ekki verið dreift í nefndinni og er eðlilegt að hún liggi fyrir áður en málið er afgreitt út. Ég get ekki séð að málið hafi verið afgreitt út miðað við lögin og það þarf þá að gerast síðar í kvöld.