143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að rifja það upp hvernig þessi pottur hefur nýst, eins og ég minnti á þá verður strax árið 2010 eldgosið í Eyjafjallajökli og miklar hamfarir því tengdar og umtalsvert tjón á mannvirkjum sem sumt var bætt af viðlagatryggingu, annað lenti á ríkissjóði. Verulegur kostnaður. Árið eftir gýs í Grímsvötnum og aftur verður umtalsvert tjón og aftur reynir á pottinn og árið 2012 gerir mannskaðaveður um norðanvert landið með verulegu fjártjóni og útgjöldum. Þannig að í öll þau þrjú skipti kom sér vel að hafa þennan pott og þá leiðir það til þess að halli á fjárlögum vex ekki þó að fjárheimildirnar séu síðan samþykktar í fjáraukalögum undir lok ársins.

Í öðru lagi þá er það þannig að menn eru held ég of uppteknir hér kannski af því að agaleysi felist fyrst og fremst í fjáraukalagafrumvarpi. Það eru líka hlutir, eins og reglur um yfirfærslu ónýttra fjárheimilda, meðferð á uppsöfnuðum skuldahalla, afskriftir í lokafjárlögum og fleira því um líkt, sem þarf að taka miklu fastari tökum.