143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ágæta ræðu. Sérstaklega gladdist ég yfir andsvari hennar þar sem hún sagði að menn ættu ekki að kaupa bíl nema eiga fyrir honum. Þetta er ég búinn að segja æðioft og ættu allir að taka sér til eftirbreytni, ekki bara forseti Íslands.

Sú var tíð að menn ræddu ekki mikið um fjáraukalög. Árið 1988 voru samþykkt fjáraukalög fyrir sex ár á einu bretti. Þetta var afgangsstærð. Og sú var tíð, sérstaklega þegar minn flokkur var í stjórn, að það var eiginlega einn maður sem talaði um fjáraukalög, sá sem hér stendur, og nuddaðist í því að það væri ekki allt saman ófyrirséð sem væri í fjáraukalögum. Ég gleðst yfir auknum og sívaxandi áhuga hv. þingmanna á þessum málaflokki, fjáraukalögunum.

Við hv. þm. Höskuldur Þórhallsson ræddum hér í gær um ferð hv. fjárlaganefndar til Svíþjóðar og það sem þeir kalla óvænt útgjöld. Þeir setja þar inn stóra fjárhæð til að mæta óvæntum útgjöldum. Ég er ekkert voðalega hrifinn af því vegna þess að þá er búið að flytja frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins ákvörðun um það hvað eru óvænt útgjöld. (Gripið fram í: Endurstaðfest af þinginu.) Það kom ekki fram að það væri staðfest af þinginu en þá finnst mér alveg eins gott að þingið samþykki bara jafnóðum fjáraukalög þegar einhverjir óvæntir atburðir gerast. Þegar gerðir eru kjarasamningar liggur fyrir hve mikil útgjaldaaukning ríkisins er, ef það verður jarðskjálfti sést nokkuð fljótlega hver útgjöld ríkisins verða og þess vegna finnst mér miklu betra að menn fari nokkrum sinnum á ári í fjáraukalög og ræði hvort þau útgjöld sem við erum að ræða þá, eitt eða tvö atriði, séu virkilega ófyrirséð og hvort ekki væri hægt að hafa þau í fjárlögum.