143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem ég óttast og þess vegna vil ég að Alþingi taki afstöðu til einstakra mála sem koma tilviljunarkennt inn, sem var ekki hægt að sjá fyrir, einmitt vegna þess að það er ekki hægt að sjá þau fyrir. Þá yrði mikil umræða um hvort hægt hefði verið að sjá fyrir hvert einstakt mál eða ekki. Það yrði miklu betri umræða, miklu minni útgjöld og meiri agi á framkvæmdarvaldinu en ef einhver heljarinnar pottur kemur í lok ársins. Ég spyr: Hvað gerist hjá Svíum ef ekkert kemur upp á? Lagast þá allt í einu fjárlögin? Er þá allt í einu góð staða á fjárlögunum sem var búið að samþykkja?

Svo langar mig líka til að spyrja hv. þingmann um það þegar menn gefa út innstæðulausar ávísanir, eins og síðasta ríkisstjórn gerði. Hún lagaði barnabæturnar sem einhverjir aðrir áttu að borga, hún lagaði fæðingarorlofið sem einhverjir aðrir áttu að borga. Hún lagaði stöðu aldraðra sem einhverjir aðrir áttu að borga, jólabónus atvinnulausra. Það var ekki innstæða fyrir þessu. (Forseti hringir.) Það var ekki einu sinni neitt inni á tékkareikningnum.