143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:05]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér enn frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013, og ég vil taka undir ræðu formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páls Árnasonar, og ítreka það að ætli menn sér að ná hallalausum fjárlögum verður það ekki gert með því að skera niður helstu vaxtarbroddana í ríkisfjármálum.

En ég kom ekki hér til að ræða einkennilega ráðstöfun á fjárlagaliði þó að full ástæða sé til og ekki heldur til þess að ræða andvaxtarstefnu ríkisstjórnarinnar heldur til að ræða tvö hjartans mál sem varða annars vegar heill alls samfélagsins og hins vegar framfærslu fólk sem býr við það ástand að vera án atvinnu. Það eru tvö málefni sem ég ætla í þessari ræðu að leggja áherslu á, það er Landspítalinn – háskólasjúkrahús, sem lögum samkvæmt er aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús, sem og desemberuppbót fyrir fólk í atvinnuleit.

Svo að við byrjum á desemberuppbótinni, sem minni hluti fjárlaganefndar leggur til að 240 milljónir verði veitt í, þá er mér það fullkomlega óskiljanlegt að það þyki við hæfi að láta þann hóp sem býr við kröppust kjör í samfélaginu og tímabundið vonandi því að vonandi fær þetta fólk vinnu sem fyrst — að skerða kjör hans. Mér finnst það svo með ólíkindum og ég trúi ekki öðru en því að meiri hluti nefndarinnar liðsinni hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra í því að finna fjármuni, þessar 240 milljónir sem upp á vantar.

Nú var það svo að atvinnuleysi varð heldur meira á árinu en áætlað var, þannig að þeir fjármunir sem áttu að fara í desemberuppbótina eru látnir renna í að fjármagna atvinnuleysistryggingar almennt. Það er nú stórhugurinn í hinni ungu hægri stjórn. Fólk sem hefur framfærslu af atvinnuleysistryggingum fær á mánuði 172.609 kr. Desemberuppbótin er rúmar 50 þús. kr. Ef við förum yfir tölur um atvinnuleysi þá eru 6.766 manns atvinnulausir núna, þar af 6.700 manns að fullu. 3.399 af þessum atvinnulausu hafa verið atvinnulausir lengur en í sex mánuði og meira en 1.955 manns hafa verið atvinnulausir lengur en eitt ár. En við höfum ekki efni á, að áliti meiri hlutans, að láta þetta fólk njóta desemberuppbótar eins og alla aðra í þessu samfélagi.

Þetta eru 3.338 konur, 2.895 karlar. Atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum eða 5,7% á því svæði sem er í ýmsu tilliti hvað verst statt á Íslandi. 4,4% íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru án atvinnu. Ég sé að stjórnarþingmenn streyma hér í sal og ég heiti á þá að sýna að þeir hafi einhverja siðferðiskennd gagnvart þeim sem eru án atvinnu og þeim sem hafa framfærslu af 172 þús. kr. á mánuði. Ef sá hópur er á leigumarkaði fær hann ekki hækkun húsaleigubóta þrátt fyrir að hér sé verið að búa til stóra skattstofna, hópur sem á ekki að njóta skattalækkana hægri stjórnarinnar, hópur sem er skilinn eftir af fullkomnu miskunnarleysi.

Hitt málefnið sem ég vil ræða er Landspítalinn – háskólasjúkrahús. Þá er ágætt að fara í fjáraukalögin og sjá hvað segir þar. Þar er nefnilega verið að veita 1.608 milljónir kr. í sjúkratryggingar. Og af hverju er það? Þar af koma 540 millj. kr. vegna endurmats á útgjöldum. Það er af því að meiri eftirspurn var eftir þjónustu sérgreinalækna en reiknað var með. En hvað fær Landspítalinn? Hann fær 734 eða 735 milljónir vegna jafnlaunaátaksins, sem reyndar dugir ekki til, það þarf meira til að standa við þá skuldbindingu. En Landspítalinn, þar varð meiri þjónustuþörf en reiknað var með — aðalsjúkrahús landsins, nei, þar er ekki bætt fyrir aukna þjónustuþörf, nei, nei. Og þetta er í anda þess sem nýr heilbrigðisráðherra landsins hefur boðað, þ.e. aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hér er aðalsjúkrahúsið látið líða en sérgreinalæknarnir, nei, þar er ekki ætlast til niðurskurðar. Enda er það ljóst og skal öllum vera ljóst að ef á að halda áfram niðurskurði, sem fyrrverandi ríkisstjórn var hætt við — við vorum hætt að skera niður hjá heilbrigðisstofnunum — en ef á að halda áfram að skera niður opinbera heilbrigðiskerfið þýðir það bara að það visnar upp og einkaaðilarnir stækka og vaxa. Við erum með blandað fyrirkomulag á Íslandi en það er óeðlilegt að draga úr hlutfalli hins opinbera í heilbrigðiskerfinu, enda er sú stóra eining sem Landspítalinn er hjartað í íslensku heilbrigðiskerfi.

Landspítalinn hefur sjálfur sagt við ýmis tilfelli að það þurfi til viðbótar við þetta um 1.500 milljónir, 3/4 vegna aukins álags á sjúkrahúsinu á yfirstandandi ári og 1/4 af þessum 1.500 milljónum er vegna jafnlaunaátaksins og vegna þess ástands sem skapaðist í upphafi árs vegna inflúensufaraldra og nórósýkinga sem urðu til þess að fyrrverandi ríkisstjórn lofaði aukinni fjárveitingu vegna þess ástands.

Þetta eru þeir tveir liðir sem ég vildi vekja sérstaka athygli á og vara við. Desemberuppbótin vegna atvinnuleysisbóta er auðvitað framlag sem skiptir einstaklinga og fjölskyldur þeirra máli núna í desembermánuði. Þetta er mikilvægt fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og þetta eru ekki miklir peningar, þetta eru sáralitlir fjármunir sem skipta þó máli fyrir heimili sem eru aðþrengd vegna skorts á atvinnu. En Landspítalinn – háskólasjúkrahús, vanræksla á fjárveitingum þangað þrátt fyrir aukið álag á sjúkrahúsinu, er stefnumarkandi til framtíðar um að ekki eigi að standa vörð um sterkt opinbert heilbrigðiskerfi. Og ég heiti á meiri hlutann að taka þetta til alvarlegrar skoðunar og sýna að þau standi með þjóð sinni og tryggi trausta opinbera heilbrigðisþjónustu í aðalsjúkrahúsi landsins.