143. löggjafarþing — 34. fundur,  11. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[23:24]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2013 og hefur hér staðið yfir allnokkur umræða um ýmsar hliðar þess máls. Það eru aðallega fjögur atriði sem mig langar að gera að umtalsefni, þó ekki stóru línurnar sem hér hafa verið ræddar töluvert, heldur tilteknir þættir frumvarpsins. Mig langar til þess að gera að umtalsefni tvö atriði sem eru þess eðlis og þeirrar gerðar að það verður varla sagt að um sé að ræða gagnsæi við gerð fjáraukalaga í þessum tveimur tilvikum og er þar með ekki góður praxís, ef svo má að orði komast, sérstaklega ekki í þeirri stöðu sem nú er uppi, þ.e. á sama tíma eru opin fjáraukalög og vinna við þau og svo fjárlögin. Vil ég þá sérstaklega gera að umtalsefni nokkuð kúnstuga tilfærslu sem fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og er að tillögu menntamálaráðherra. Menntamálaráðherra leggur til að allnokkrum fjárlagaliðum á yfirstandandi ári sem ekki hafa nýst eða ekki hafa verið nýttir heldur eru sem sé uppsafnaðir í árslok — og er ég þá að tala um liði sem eru hér og þar innan ramma menntamálaráðuneytisins, Grunnskólar, almennt, upp á 90 milljónir, Framhaldsfræðsla upp á 32,2 milljónir og Framhaldsskólar, almennt, námskrárgerð, upp á 120 milljónir — sé sópað saman undir liðnum Framhaldsskólar, almennt, og er gert ráð fyrir því að þessir fjármunir verði nýttir á næsta ári.

Á þessum lið, sem verður eins konar regnhlífarliður, eru þegar ónýttar fjárheimildir á árinu 57,8 milljónir, þannig að allt í allt gerir þetta 300 milljóna sérstakan lið í fjáraukalögum, sem hefur á sér yfirbragð, röksemdir og tilurð sem ættu heima í fjárlögum. Það er svolítið subberí í þessu verklagi, eins og kom aðeins fram í umræðum í gær, og kannski sérstaklega vegna þess að fjárlagafrumvarpið er enn þá opið, þannig að það er hægt að gera þetta rétt. Það er hægt að gera þetta þannig að ónýttar heimildir séu einfaldlega felldar niður innan ársins og síðan sé rökstudd ný tillaga, breytingartillaga við fjárlagafrumvarpið.

Meiri hlutinn gerir athugasemdir við þennan máta í nefndaráliti sínu og tekur raunar dýpra í árinni en almennt gerist þegar menn eru ekki sáttir í meirihlutaáliti og átelur vinnubrögðin, þ.e. vinnubrögð menntamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins, geri ég ráð fyrir, vegna þess að þaðan koma tillögurnar. Fjármálaráðuneytið er í einhverjum skilningi búið að leggja blessun sína yfir þessa ráðagerð og bendir fjárlaganefndin á að réttara sé, með leyfi forseta „að ónýttar heimildir falli niður og ráðherrar geri þá nýjar tillögur um útgjöld í samræmi við breytta forgangsröðun“.

Það liggur í augum uppi og í hlutarins eðli að væri eðlilegur máti. Mér finnst ekki að meiri hluti fjárlaganefndar hafi í raun rökstutt það í umræðunni, af því að þetta hefur komið upp hér nokkrum sinnum, bæði í gær og í dag, af hverju hún styður þó þennan umbúnað málsins því að fjárlaganefnd er á sama tíma með fjárlagafrumvarpið til afgreiðslu og umfjöllunar. Það er umhugsunarefni.

Í nefndaráliti minni hlutans er bent á að meiri hlutinn hafi í uppleggi sínu gert ráð fyrir að vera 600 millj. kr. í plús í fjárlagafrumvarpinu og að þarna séu menn komnir hættulega nálægt núllinu með því að vera komnir 300 í plús af því að þarna sé í raun og veru nýr fjárlagaliður inni á árinu 2014. Ég veit það ekki, ég ætla ekki að fara í slíkar spekúlasjónir en fólk hefur haft uppi þær vangaveltur.

Þetta eru allt saman tæknileg atriði sem ég er að tala um hér og í raun og veru má segja að það sé sama hvað krónan heitir, hún er alveg sú sama hvort sem hún er afgreidd í fjárlagafrumvarpi eða í fjáraukalagafrumvarpi þó að hér séu áhöld um að farið sé að gildandi fjárreiðulögum.

Það er kannski meira umhugsunarefni að hér er lagt til að þessar 300 millj. kr. séu sameinaðar á lið sem menntamálaráðherra ætlar að nýta á næsta ári til að innleiða tiltekna menntastefnu. Fram kemur í skýringum við breytingartillögurnar að þar sé gert ráð fyrir aðgerðum í framhaldsskólum sem lúta að skipulagsbreytingum, m.a. til þess að stytta námstímann til stúdentsprófs. Það er nú kannski ekki hinn hefðbundni máti við að vinna að stefnumótun, þ.e. að vinna fjáraukalagabreytingartillögu til þess að sópa saman einhverjum lið og búa til peninga fyrir næsta ár til þess að undirbyggja og innleiða stefnu sem ekki hefur verið afgreidd eða sem ekki er komin niðurstaða í. Það er því svolítið óvenjuleg röð atburða, ef svo má að orði komst.

Ég hefði haldið að ráðherrann þyrfti að gera grein fyrir stefnu sinni og að ræða hana við þingið. Menntamálaráðherra segir okkur að unnið sé að hvítbók þar sem farið sé yfir sviðið í heildina og það er allt gott og blessað. Samt sem áður eru komnar hér einhverjar niðurstöður varðandi það hvað stendur til og eins eru komnir með undarlegum hætti einhverjir peningar til þess að innleiða þá niðurstöðu á næsta ári án þess að fara fjárlagaleiðina.

Þetta er því kúnstugt og við, minnihlutafulltrúarnir í allsherjar- og menntamálanefnd, óskuðum í gær eftir því að menntamálaráðherra kæmi á fund allsherjar- og menntamálanefndar, sem er fagnefndin sem sér um þau mál sem undir ráðherrann heyra, og óskuðum eftir að fá hann til ráðslags við nefndina, a.m.k. að hann geri okkur grein fyrir því hvað liggi að baki þessari stefnumótun og hver aðdragandinn að því sé o.s.frv. Við óskuðum eftir því við formann nefndarinnar í gær. Er skemmst frá því að segja að svar hefur borist frá formanni nefndarinnar um að málið sé til umfjöllunar í fjárlaganefnd og þess vegna þyki ekki rétt að fagnefndin taki það til skoðunar sérstaklega. Er okkur þá nokkur vandi á höndum því að þá væntanlega þurfum við, ef ekki verður farið að halla að nóttu, að kalla á mennta- og menningarmálaráðherra hér í umræðu um fjáraukalög til þess að ræða stefnumörkun í menntamálum og þá … (Gripið fram í: Leyfum þreyttum að sofa.) Leyfum þreyttum að sofa.

Við erum komin á dálítið undarlegan stað ef við förum þá leið. Um leið og þessari umræðu og afgreiðslu fjáraukalaga lýkur getum við tekið málið upp í allsherjar- og menntamálanefnd, þ.e. faglegar hliðar þess, og ég vænti þess auðvitað að samstarf við ráðherrann verði öflugt og gott. En mér finnst þetta eiginlega alveg með ólíkindum, mér finnst þetta mjög furðuleg leið. Mér finnst það ekki gott, mér finnst það bara ekki hollt fyrir framkvæmdarvaldið að gefa það fordæmi. Svo allrar sanngirni sé gætt þá segir meiri hluti nefndarinnar að þetta sé ekki gott og að svona eigum við ekki að gera, en þó er ákveðin hvatning í því gagnvart öðrum sem með framkvæmdarvaldið fara, að fara með stækkunargler og flísatöng yfir sinn ramma þegar fer að nálgast seinni hluta árs og sópa þar saman því sem ekki hefur nýst og búa til svona laumufarþega í staðinn fyrir að standa í dagsbirtunni sem hlýst af venjulegum fjárlagabeiðnum, sem við þekkjum öll að slíkar beiðnir þurfa að þola, að þar þarf ráðherrann að hafa fyrir því að rökstyðja sín mál og allt þarf að ganga eðlilega fyrir sig. Ég velti því þess vegna enn fyrir mér hvort ekki sé rétt milli 2. og 3. umr. að nefndin búi um málið eins og meiri hlutinn segir í raun í nefndarálitinu að rétt væri að gera, og fella niður heimildirnar og taka þær inn í fjárlög eins og vera ber.

Hér er annað mál sem er dæmi um umbúnað sem ekki er til fyrirmyndar, svo maður setji nú á sig kennslukonuyfirbragðið. Það er ekki í breytingartillögum meiri hlutans heldur í frumvarpinu sjálfu, þ.e. frumvarpi til fjáraukalaga. Þar er kunnuglegt setningarbrot sem er mjög víða í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. „svonefnd fjárfestingaráætlun“ fyrir árið 2015 og svo eitthvað um að forsendur um fjármögnun þeirra gangi ekki eftir. Það er sem sagt „svonefnd fjárfestingaráætlun“ og að forsendur gangi ekki eftir. Einhvern tíma væri nú gaman að finna með leitargræju hvað það kemur oft fyrir, því að það er leiðarstef í gegnum þennan texta að mönnum þykir þetta greinilega vera dálítið öflug lína, sem hefur líka komið ítrekað fram í málflutningi meiri hlutans, þ.e. yfirskriftin er „svonefnd fjárfestingaráætlun“ og svo segir að þetta sé ekki fjármagnað. Það minnir svolítið á umræðuna um „svokallað hrun“, sem var vinsæl hjá fólki í þessum armi stjórnmálanna. Þetta er svona góðlátleg glósa um að þetta standi nú varla undir nafni og megi nú kalla þetta „svonefnt“.

Gott og vel. Þarna er einn af þessum liðum undir hinni „svonefndu áætlun“, sem er Græna hagkerfið. Þar var um að ræða 280 millj. kr. lið sem byggður var á gríðarlega merkilegri vinnu hér í þinginu, sem var draumaverkefni að mörgu leyti, sem var svona 63:0-vinna þar sem allir voru voða kátir. Um leið var eins og við værum í uppbyggilegu starfi í þinginu og að fólk gæti virkilega komist að uppbyggilegri og jákvæðri niðurstöðu. Einhverjir fyrirvarar voru þó þar á ferð en þetta var býsna merkilegt. Ég varð vör við það sem umhverfisráðherra í fyrri ríkisstjórn, bæði á ráðstefnum erlendis, á loftslagsráðstefnum og Ríó +20 og víðar, þar sem við vorum með eintak á ensku af þessari áætlun, að þetta þótti flott plan.

Það eru allir að reyna að grænka hagkerfi sitt, þ.e. að draga úr álagi á auðlindir og sjá raunverulega möguleika á hagvexti og þroska samfélagsins án þess að gengið sé á auðlindir jarðar. Það er stefnumörkun sem er til mjög víða um heim og er alls ekkert endilega bundin við hægri og vinstri. Við sjáum það í Norðurlandaráðsumræðunni og hjá Sameinuðu þjóðunum og víðar, þannig að þetta var gott plagg. Ég var mjög vongóð vegna þess hvað það fékk mikinn stuðning. En svo heyrðust ákveðnir tónar í fjárlagaumræðunni síðast þar sem sumir höfðu horn í síðu alls þess sem grænt var og töluðu á móti því. Það snerist kannski ekki um mat á innihaldi mála. Fordómar flýta fyrir manni þannig að ef maður finnur bara allt sem grænt er og ákveður að vera á móti því þá er maður fljótari að vinna en ef maður hugsar um hvað er þar á bak við.

Látum það nú allt saman vera og hér er komin ný ríkisstjórn, hér voru kosningar, eins og oft hefur verið sagt, og hér er þetta græna hagkerfi og við viljum ekki eyða peningum í það. Það er hluti af „svonefndri fjárfestingaráætlun“ og forsendur fjármögnunar þeirra ganga ekki eftir. Gott og vel. En svo gerist það í næsta lið að þar er allt í einu til einhver liður sem er dálítið furðulegur. Liðurinn er undir forsætisráðuneytinu og hefur nú aðeins borist hér í tal, líka í andsvörum, hann heitir Græna hagkerfið og verkefni tengd vernd sögulegra og menningartengdra byggða og fornleifa o.fl. Þarna er allt í einu eitthvað orðið fjármagnað og þarna er allt í einu ekkert „svonefnd fjárfestingaráætlun“ heldur er bara kominn nýr fjárlagaliður upp á 165,5 millj. kr., sem urðu einhvers staðar til, einhvers staðar í þessu vanfjármagnaða ferli og á þeim lendum sem fyrri ríkisstjórn skildi eftir. Það var allt í einu fjármagnað að fullu og það sem er merkilegt við þennan lið er að þetta er svona „o.fl.-liður“. Ég held að menn verði frekar að reyna að forðast svoleiðis liði en þarna er liður sem er fjárlagaútgáfan af stefnuræðu forsætisráðherra. Þetta er orðinn fjárlagatexti sem er eiginlega stefnuræða forsætisráðherra um varðveislu þjóðminja, íslensk þjóðmenning í hávegum höfð, að henni hlúð og alls konar svona, sem er stefnumál forsætisráðherra. Þarna eru allt í einu til peningar og þetta eru dálitlir peningar, 165,5 millj. kr., og þetta eru allt saman alveg örugglega fín verkefni, en þarna eru skrýtnir hlutir; þarna er Minjastofnun með 70 milljónir og þarna er Þjóðminjasafn með 80 milljónir, en báðar stofnanirnar eru sérstakur fjárlagaliður. Af hverju eru þessar tölur ekki þar? Af hverju eru þessar tölur undir einhverjum samansópsfurðulið forsætisráðherra?

Svo ætlar hann að fara í einhverjar sögulegar og menningartengdar byggðir og fornleifar o.fl. og ýmislegt. Virðulegur forseti, ég get ekki neitað því að þetta lítur út í mínum augum eins og stærsta ráðherraskúffan. Hún er bæði djúp og breið, eins og segir í textanum. Þar er mikið fé að finna. Flestir ráðherrar þurfa nú að láta sér lynda að vera með rúmar 2 milljónir til þess að koma til móts við væntingar og þrár ýmissa sem eru að sýsla við þau verkefni sem undir ráðherrann heyra, en þarna er alveg svaka stór skúffa, 165,5 milljónir kr. í skúffu forsætisráðherra, sem býr þó við það að koma að alveg hreint svakalegu búi þar sem allt er vanfjármagnað meira og minna og lítur bara verulega illa út.

Mér finnst þessi liður ekki vera til fyrirmyndar af því að ég veit að hv. fjárlaganefnd og forusta hennar hafa lagt sig fram um að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald og þau hafa í raun verið ótrúlega brött í því. Maður hefur séð breytingartillögur milli umræðna og hér kom utanríkisráðherra í gær og bar sig aumlega yfir því að hafa ekki fengið tillögur sínar í gegn vegna þess að forusta fjárlaganefndar hafi sagt: Þetta er bara ekki nógu vel rökstutt hjá þér, kallinn minn. Og hann var eiginlega gerður afturrækur með beiðni sína.

En hér er eitthvað sem forusta fjárlaganefndar gæti litið til milli 2. og 3. umr. því að þarna er eitthvað mjög sérkennilegt á ferð. Ef við viljum horfa til þess að taka til í kerfinu og hagræða og passa okkur á því að allt sé nú upp á punkt og prik í kerfinu þá þarf nú aldeilis að taka til hendinni þarna. Af því að ég veit að forustu hv. fjárlaganefndar vill hugsa út fyrir boxið þá er þarna skúffa sem má alveg kíkja í, því að það er ekki gott að vera með svona furðulið í einu ráðuneyti hjá einum tilteknum ráðherra. Og 300 millj. kr. pottur mennta- og menningarmálaráðherra er með svipuðu yfirbragði. Þar er rosalega langur listi af einhverju sem á að gera fyrir þessar 300 milljónir, mjög illa skilgreint. Það er ekki góður máti þannig að ég skora á hv. nefnd að skoða það sérstaklega.

Virðulegur forseti. Það voru nú tvö önnur atriði sem ég ætlaði að nefna hér sem eru nefnd og rökstudd ágætlega í nefndaráliti minni hlutans. Það er annars vegar sú staðreynd að starfsemi Landspítalans í upphafi árs fór umfram það sem tíðkast í meðalári og var það vel rökstutt af Landspítalanum að þar stæði spítalinn frammi fyrir óvenjulegum vanda sem var uppáfallandi. Starfsfólk spítalans veiktist mikið, þar var um að ræða tilteknar veirusýkingar. Minni hlutinn gerir breytingartillögu um 125 millj. kr. framlag af þessum sökum, sem ég held að sé afar mikilvægt að skoða betur. Það passar að taka upp úr skúffunni hjá forsætisráðherra og setja fé í þetta til dæmis, ég segi það svona sem hugmynd.

Hitt sem ég held að nefndin verði einfaldlega að horfa til er desemberuppbót atvinnulausra. Ég held að sú tillaga sé hreinlega þess eðlis að við förum ekki inn í jólin öðruvísi en að leysa það með sómasamlegum hætti.