143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[00:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í þessum umræðum sem hefur að mjög stórum hluta verið málefnaleg og uppbyggileg. Ég mun eðli málsins samkvæmt á þessum síðustu tíu mínútum ekki geta farið í gegnum alla þá hluti sem hér komu fram. Ég fór í gegnum ýmislegt hér fyrr í dag eða gær — dagarnir renna svolítið saman þessa stundina — og svaraði andsvörum og hef svo tekið nokkurn þátt í umræðum. Mér finnst margt vera mjög áhugavert sem við erum að fara hér yfir.

Jafn leiðinlegt og okkur finnst það verðum við að horfast í augu við staðreyndir. Og staðreyndin er þessi: Það var búist við að fjárlög fyrir árið 2013 yrðu hallalaus en hallinn var um 30 milljarðar kr. og er stór munur þar á. Staðreyndin er líka sú að sú áætlun sem gerð var í tengslum við samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn — ein kennitala var frumjöfnuður, sem hefur engan veginn gengið eftir. Það þarf 3,5% frumjöfnuð til þess að hætta að auka skuldir og 5% til að byrja að greiða niður skuldir og það átti að vera búið að ná 5,7% frumjöfnuði 2012, á árinu 2013 átti að vera 8% en hann er um 1%. Við erum því alveg víðáttulangt frá því að ná þessu markmiði og það er staðreyndin og það sem við þurfum að lifa við og taka ákvörðun út frá, því að við getum ekki búið við það að auka skuldir áfram.

Hv. þm. Helgi Hjörvar fór ágætlega yfir þróunina í bæði fjárlögum og fjáraukalögum varðandi frávik, og hann fór ágætlega yfir það. En þó væri gott að fara sérstaklega yfir þá hluti vegna þess að það er mikilvægt að sú umræða sé upplýst og byggð á staðreyndum. Það er ágætlega farið í gegnum það á bls. 67 og 68 í fjáraukalagafrumvarpinu. Það var til dæmis farið yfir ákveðinn galla hvað það varðar að frávikin einkennast oft af hlutum sem kannski er erfitt að eiga við.

Hér segir til dæmis, með leyfi forseta:

„Sem dæmi má nefna að hluti lífeyrisréttar opinberra starfsmanna, sem er ófjármagnaður, gjaldfærist í rekstrarreikning ríkissjóðs og geta breytingar á metnum lífeyrisskuldbindingum, t.d. vegna aukinna lífslíkna eða slakari ávöxtunar lífeyrissjóðanna, hlaupið á milljörðum kr., jafnvel tugum milljarða.“

Þetta er einn af þeim þáttum sem er kannski erfitt að eiga við og skekkir samanburð. Við erum á sama tíma að horfa á það að agaleysi hefur verið mikið í ríkisfjármálunum og því miður, þó að ákveðinn árangur hafi náðst rétt eftir bankahrun hefur aftur sigið á ógæfuhliðina og nú eru um 40% af fjárlagaliðum yfir heimild. Mér vitanlega hefur það aldrei verið meira. Það er því verk að vinna að snúa þessari þróun við.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór yfir það ásamt fleiri þingmönnum að meiri hluti fjárlaganefndar skrifar nefndarálit þar sem við gagnrýnum fjáraukalagafrumvarpið. Þá erum við ekkert að hlífa okkar fólki, við erum ekki að því. Og ég tel að þannig eigi fagnefndir að vinna. Ég heyri að þetta kemur hv. stjórnarandstæðingum á óvart og þeir vita kannski ekki alveg hvernig þeir eiga að fóta sig í þessari umræðu, en ég tel að það skipti ekki máli, hvort sem um er að ræða viðkomandi ríkisstjórnarflokka eða aðra, að fagnefndir eiga að fara faglega yfir hlutina og benda á það sem miður fer.

Bent hefur verið á það og það var sérstaklega tekið fram, það sem sneri að menntamálunum og sömuleiðis varðandi Íbúðalánasjóð. Munurinn á þessu tvennu liggur í því, og það er líka eitt sem við þurfum að ræða þegar við ræðum ný lög um fjárreiður ríkisins, sem við gerum væntanlega á vormánuðum, að við verðum að huga að því hvaða hvata við erum að búa til. Í menntamálum er það þannig að þar er verið að nota ónotaðar heimildir, þ.e. það sem ekki hefur verið nýtt; sem þarf ekki að vera slæmt, það er ekki markmið að nýta allar fjárheimildir þó að þær séu til staðar. Og þeim er safnað saman til að nýta við undirbúning og innleiðingu á nýrri stefnu sem hefur verið kynnt og verður örugglega og án nokkurs vafa rædd verulega hér í þinginu. Ég held að menn muni nú kalla eftir því að vel verði lagt vel upp úr góðum undirbúningi til að taka ákvarðanir út frá og það er í sjálfu sér jákvætt. En það sem hefur verið gagnrýnt er að það hefði mátt gera með öðrum hætti, þ.e. að setja fjárlagalið inn á fjárlög. Þetta eru hins vegar ekkert slæmar fréttir fyrir skattgreiðendur að því leyti til — auðvitað er þetta allt saman gagnsætt og ekki er verið að fara fram úr fjárheimildum eða setja einhverja óinnleysta tékka eða útgjöld heldur er verið að gera þetta á þennan hátt og tæknilega má gagnrýna þetta vegna þess að það má segja að alla vega hluta af þessum kostnaði mætti setja í fjárlög fyrir 2014.

Síðan er annað sem minna hefur verið rætt um, sem er miklu stærra og alvarlegra mál og af allt öðrum toga, og það er það sem snýr að Íbúðalánasjóði. Þar erum við að gagnrýna að ekki sé komin aðgerðaáætlun til að stöðva gríðarlegt útstreymi úr sjóðnum, en að öllu óbreyttu þurfum við að setja 9 þús. milljónir af skattfé inn í sjóðinn, þennan húsnæðisbanka, núna fyrir jólin.

Einnig erum við að fara yfir það sem við finnum og maður finnur í umræðunni að hugmyndin með fjáraukalögum er sú að það séu ófyrirséð útgjöld. Ég held að óhætt sé að segja að í þessum fjáraukalögum, eins og mörgum öðrum, hefði mátt gera betur og sumt er í það minnsta á gráu svæði hvað það varðar. Ég held hins vegar að það sé ekki nema sanngirni að halda því fram að við séum að þróa okkur á þessari braut alla vega í orði kveðnu — og ég held í raun að allir hv. þingmenn séu sammála um þetta — en það tekur nokkurn tíma að koma okkur á þann stað sem við viljum sjá. Við þurfum síðan líka að ræða þetta umhverfi, og gerum það vonandi á vormánuðum, þannig að við séum hér með þann undirbúning eða þá umgjörð sem gefur hvað réttasta mynd af stöðu ríkissjóðs á hverjum tíma og sömuleiðis sé verið að skapa réttu hvatana hvað varðar ríkisfjármálin, þannig að til dæmis sé hæstv. ráðherrum eða framkvæmdarvaldinu í raun frekar umbunað fyrir sparsemi og ráðdeild en að verið sé að ýta undir að nýta allar fjárheimildir þegar hægt er að halda aftur af útgjaldaaukningu. En þetta, virðulegi forseti, tekur tíma.

Hér hefur líka verið rætt nokkuð um þróunaraðstoð í þessu samhengi, í það minnsta hér í kvöld. Ég held sömuleiðis að við þurfum að ræða þau mál mjög vel. Við þurfum að ræða bæði um framkvæmd hennar en ekki síður er að mjög stór hluti okkar þróunaraðstoðar telst ekki til þróunaraðstoðar og þá er ég að vísa til Þróunarsjóðs EFTA. Okkur var gert, þegar við fórum inn í EES, að greiða ákveðið gjald til að styrkja svæði sem þá þóttu fátæk í Evrópusambandinu, og var aðallega verið að vísa í Spán, Portúgal og Grikkland og hluta af Ítalíu, ef man rétt, í það minnsta þessi þrjú fyrstnefndu. Þegar því tímabili lauk krafðist ESB þess að við mundum greiða áfram og við erum búin að gera það síðan núna í rúmlega 20 ár. Þarna er um gríðarlega fjármuni að ræða sem ég segi fyrir sjálfan mig að ég hefði frekar viljað sjá að við mundum nýta í þróunaraðstoð til þróunarlanda í staðinn fyrir að nýta í þróunaraðstoð til ESB-landa og vek athygli á því að við höfum meira að segja greitt þróunaraðstoð til Stóra-Bretlands, nánar tiltekið Norður-Írlands. Þó að það séu grannþjóðir okkar og vinaþjóðir að mestum parti og við alla jafnan haft góð samskipti við þær þá sé ég ekki rökin fyrir því að við séum að greiða þróunaraðstoð þangað.

Virðulegi forseti. Ég vil bara nota tækifærið og þakka fyrir ágæta og málefnalega umræðu. Frumvarpið fer í nefnd á milli 2. og 3. umr. og þar förum við yfir þá hluti sem fram komu í umræðunni sem og annars staðar. Það skiptir eðli málsins samkvæmt miklu máli að fara vel yfir málin og ég vona að þessi umræða sem hefur verið hér muni hjálpa okkur í vinnunni sem fram undan er.