143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[00:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má enginn skilja orð mín svo að ég sé á nokkurn hátt að leggjast gegn þessu máli. Ég tel þvert á móti að sterk efnisleg rök séu fyrir því að gera þetta núna. Það er út af fyrir sig málefnalegt sjónarmið að þegar komin er einhver mynd á þessar aðgerðir sé staðan sterkari að því leyti til að hægt sé að höfða skýrt til þess að það megi teljast málefnalegt að þar sem ætla megi að einhverjir sem eru í þessum vanda fái þannig úrlausn að þeir komist hjá nauðungaruppboðum sé skynsamlegt að búa til þennan frest. Það mun hins vegar því miður ekki breyta hinu að ýmsir munu segja, sem fyrir þessu urðu á liðnum sumar- og haustmánuðum, að þeir hefðu þegið að fá sambærilega meðferð, það er bara veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. Út af fyrir sig má líka spyrja: Höfðu stjórnvöld, sem boðuðu þessar aðgerðir reyndar miklu umfangsmeiri en niðurstaðan virðist svo ætla að verða, ekki þá trú á þeim að þau gætu teflt þeim fram og sagt: Þetta er að koma. Við munum í krafti valdaaðstöðu okkar og meiri hluta fara í þannig aðgerðir að þær stofna efnislega rétt til þess að stöðva nauðungaruppboð?

Ég ætla ekki að fara út í nánari rökræður eða deilur um lögfræðina í þeim efnum, við erum bara þar stödd þar sem við erum stödd og verðum að horfast í augu við það. En síðan endurtek ég bara þau varnaðarorð, sem ég held að hljóti megi kalla, að það er ekkert einfalt í þessum málum. Það er býsna snúið að fara inn í þetta á hvern hátt sem það er gert, meðal annars vegna þess að svo lýkur svona tímabili. Þá kemur upp erfið staða þegar hin hefðbundnu, lögbundnu ferli eru sett í gang á nýjan leik.