143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[01:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Núna ræðum við frumvarp hæstv. innanríkisráðherra um frestun á nauðungarsölu. Ég er mjög ánægð að frumvarpið sé komið fram og komi á dagskrá í þinginu. Það er mikilvægt að málið fái skjóta meðferð í vinnslu þingsins svo frestun á nauðungarsölum verði sem fyrst að lögum.

Samkvæmt frumvarpinu ber sýslumanni að vera við ósk gerðarþola um frestun á nauðungarsölu fram yfir 1. júlí næstkomandi og eins og fram kom í orðum hæstv. innanríkisráðherra mun sá tími jafnvel verða lengdur fram til 1. september. Því ber að fagna.

Frumvarpið nær til gerðarþola sem heldur lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda. Að hægt sé að stoppa nauðungarsölu er mikilvægt á meðan aðgerðir ríkisstjórnarinnar við skuldamál heimilanna ná fram að ganga. Það er að mínu mati nauðsynlegt því að miklar líkur eru á að skuldaaðgerðir ríkisstjórnarinnar muni breyta stöðu margra heimila og forða þeim frá nauðungarsölu.

Skuldaaðgerðirnar munu koma til framkvæmda um mitt næsta ár og því er ekkert nema gott um það að segja að skuldarar geti lagt mat á aðgerðirnar, þ.e. hvaða áhrif þær hafa á fjárhagsstöðu án þess að eiga á hættu að missa eign sína í nauðungarsölu á meðan skuldaaðgerðirnar ná fram að ganga.

Í því samhengi verð ég að minnast á — en ég verð að viðurkenna það hér í þingsal að ég þekki ekki nógu vel til þessara mála og hvernig þeim er fyrir komið, en það getur jafnvel verið að málin séu þannig — að nauðsynlegt er að bregðast við málum þar sem heimili hafa nú þegar farið í uppboð og eru enn á samþykkisfresti. Taka þarf á því að auka samþykkisfrestinn sjálfkrafa á þeim málum svo frestur þeirra verði einnig lengdur til 1. júlí eða 1. september, alveg eins og fjallað er um í frumvarpi því sem hér um ræðir. Ég er þess fullviss að tekið verði á því og jafnræði haft að leiðarljósi við vinnslu þessara mála.

Í frumvarpinu kemur fram að skuldarar verði sjálfir að óska eftir ákvörðun um frestun uppboða og að frestað verði fram yfir 1. júlí. Í kjölfar þess verði sýslumaður að vera við þeirri beiðni án þess að leitað sé eftir afstöðu gerðarbeiðanda til beiðninnar. Ég tel mikilvægt, ég verð að taka það fram, að skuldarar sæki sjálfir um þessa frestun, en sá liður frumvarpsins hefur fengið hvað mesta gagnrýni í samfélaginu.

Við verðum samt að horfa til þess að sumir sjá ekki hag sinn í því að fresta málunum og vilja klára þau og taka verður tillit til þess hóps eins og þeirra sem óska eftir því að fá þennan frest.

Sumir vita nú þegar að þeir geta sér enga vörn veitt og munu ekki halda eignum sínum þrátt fyrir allar þær aðgerðir sem unnið er nú að. Arion banki og Íslandsbanki hafa ákveðið að fresta nauðungarsölum fram til 1. júlí næstkomandi og vona ég að aðrar fjármálastofnanir og sjóðir geri hið sama ef ekki er búið að því nú þegar.