143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[01:21]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kýs að nálgast málið ekki þannig, ég ætla ekki að fara í meting við hv. þingmann um hver gerði hvað eða hverjum er hvað að kenna o.s.frv. Ég sagði áðan í ræðu minni, veit ekki hvort hv. þingmaður var að hlusta, að ég teldi að aðgerðir fyrri ríkisstjórnar — ég fór sérstaklega yfir tölur þar sem ég rakti að nauðungarsölum hefur farsællega farið fækkandi. Ég var ekkert að þakka mér það sérstaklega eða núverandi ríkisstjórn, ég var að segja að einhverjar þær aðgerðir sem gripið var til, og sannarlega var það gert á síðasta kjörtímabili, nýttust greinilega þessum hópi þannig að nauðungarsölum hefur sem betur fer ekki haldið áfram að fjölga. Ég held að við getum öll fagnað því að þeim hefur farið fækkandi.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um áhrif á einstaka hópa er ég þeirrar skoðunar — og það er okkar mat og þess vegna leggjum við þetta fram eins og við höfum alltaf talað um í kjölfar þessara aðgerða. Já, við erum þeirrar skoðunar að þessar aðgerðir geti hjálpað þeim hópi sem stendur frammi fyrir erfiðustu málunum. Við erum þeirrar skoðunar. Og við erum þeirrar skoðunar að sannarlega eigi það fólk rétt á því að fara yfir það og meta það og komast að raun um hvort þetta breytir veruleika þess þannig að það geti komist undan því að fara í gegnum nauðungarsölur.

Ég er ekki sammála hv. þingmanni um það sem dró hér í lokin — ég vona reyndar að ég hafi misskilið það — þegar nefnt var að þetta skipti kannski engu sérstöku máli fyrir þann hóp. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta skipti verulegu máli fyrir þann hóp, þótt ekki væri nema til að tryggja það sem er ákveðið sanngirnis- og réttlætismál, að þegar boðaðar eru þessar aðgerðir sem eru sannarlega taldar hafa almenn áhrif á langflestar fjölskyldur í landinu njóti þessi hópur þeirra réttinda og við veitum honum þau réttindi að hafa nokkra mánuði til að fara yfir það hvernig aðgerðirnar spilast gagnvart fjárhag hans.