143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

nauðungarsala.

232. mál
[01:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra virðist einhvern veginn hafa túlkað orð mín svo að ég væri í metingi varðandi aðgerðir fyrri ríkisstjórnar. Því fer fjarri. Ég var að lýsa áhyggjum mínum í ljósi orða hennar um að ekki hefði þótt tímabært að leggja þetta frumvarp fram fyrr en tillögur lægju fyrir um aðgerðir til skuldaniðurfellingar, það þyrfti að sjá hvaða áhrif þær hefðu. Ég lýsti áhyggjum mínum af því að ekki lægi nein greining til grundvallar því hvaða áhrif hin almenna skuldaniðurfelling hefði á verst stadda hópinn. Aðgerðin er ekki almennari en svo að hún nær bara til ákveðins hóps skuldara.

Það sem mér hefur sýnst og fleirum af þessari yfirferð er að þeir sem eru í allra mesta skuldavandanum muni ekki fá lausn sinna mála með þessum tillögum. Þá liggur á að fara ofan í saumana á málefnum þess hóps. Það er hægt að nýta tímann með frestun á nauðungarsölum, enda lýsti ég því yfir að ég ætlaði síst að rjúfa þá samstöðu sem væri um málið, en ég tel það ábyrgðarhlut að bíða fram á mitt næsta ár til að komast þá að því sem næstum því liggur nú ljóst fyrir ef fólk les skýrsluna og skoðar þetta — að þessi hópur er skilinn eftir.

Ég kalla eftir því að á sama tíma og þessi frestun verður lögfest þannig að fólk fái grið og skjól sé tíminn nýttur vel til að fara ofan í saumana á stöðu þessa fólks og hvað sé hægt að gera ef það fellur ekki undir heimsmetið.