143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Ég þakka þingmönnum kærlega fyrir að hafa leyft að taka þetta mál til flýtimeðferðar. Það kemur fram í framhaldi af þingsályktunartillögu sem hæstv. forsætisráðherra flutti í sumar um aðgerðaáætlun í tíu liðum um það hvernig taka skuli á skuldavanda heimilanna.

Markmið þessa frumvarps er að gera einstaklingum kleift að fara fram á gjaldþrotaskipti á búi sínu ef fyrir liggur að þeir eru í verulegum greiðsluerfiðleikum, hafa leitað annarra greiðsluvandaúrræða án árangurs eða umboðsmaður skuldara metur það svo að önnur greiðsluvandaúrræði muni ekki gagnast við greiðsluvanda viðkomandi.

Við höfum svo sem oft farið í gegnum það á þingi, við höfum séð það í tölum frá Creditinfo, að kröfuhafar hér á landi sjá sér ekki alltaf hag í því að krefjast gjaldþrotaskipta ef þeir telja ljóst að lítið sem ekkert fáist upp í kröfur þeirra. Við þessar aðstæður getur verið nauðsynlegt og æskilegt fyrir skuldarann sjálfan að fara fram á gjaldþrotaskipti þannig að kröfur á hann fyrnist á tveimur árum líkt og nú er kveðið á um í lögum um gjaldþrotaskipti í staðinn fyrir að fara eftir almennum fyrningarreglum um kröfur þar sem þær fyrnast á fjórum eða tíu árum eftir eðli kröfunnar. Því þykir mikilvægt að veita skuldurum þannig tækifæri til að krefjast gjaldþrotaskipta á búum sínum eigi þeir enga annarra kosta völ. Fjárhagsaðstoðin mundi samkvæmt þessu frumvarpi byggjast á því markmiði.

Ég legg áherslu á að gjaldþrotaskipti hljóta alltaf að vera neyðarúrræði til lausnar á vanda einstaklinga. Eins og ég sagði er því gert ráð fyrir að það sé skilyrði áður en heimilt er að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta að skuldari hafi annaðhvort leitað annarra greiðsluvandaúrræða án árangurs eða að önnur úrræði gætu ekki leyst úr vanda hans að mati umboðsmanns skuldara. Þetta er ef fólk hefur engan annan valkost.

Þegar síðan er litið til reynslunnar hjá umboðsmanni skuldara af umsóknum um greiðsluaðlögun sést að einstaklingar hafa í mörgum tilvikum ekki fjárhagslegt bolmagn til að reiða fram tryggingu fyrir greiðslu skiptakostnaðar samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti og fleira sem dómarar ákveða hverju sinni með tilliti til umfangs hvers máls.

Það er algengast að fjárhæð trygginganna nemi 250 þús. kr. vegna skipta á búum einstaklinga og tekur þetta frumvarp mið af þeirri upphæð. Umboðsmaður skuldara skal meta hvort þessi skilyrði frumvarpsins fyrir fjárhagsaðstoð séu uppfyllt. Starfsmenn embættisins hafa sérþekkingu á þessu sviði. Þúsundir manna hafa farið í gegnum þjónustu embættisins á undanförnum árum. Við höfum líka lagt áherslu á að þarna komi þessi sérþekking að og að ákvörðunarferlið sé einfalt og geti tekið skamman tíma. Það hefur oft verið þannig, eins og við sjáum á þeim fjölda mála sem hefur komið fyrir úrskurðarnefnd um greiðsluaðlögun, að greiðsluaðlögunarferlið hefur til dæmis tekið mjög langan tíma og fólk upplifað það of flókið. Hér er reynt að leggja upp með að hafa ákvörðunarferlið einfalt og að það taki skamman tíma. Það er von mín að ef þetta verður að lögum gangi það síðan eftir.

Ákveði umboðsmaður að fjárhagsaðstoð samkvæmt frumvarpinu skuli veitt komi til gjaldþrotaskipta er gert ráð fyrir að hann gefi út yfirlýsingu þess efnis sem fylgi kröfu til héraðsdóms um gjaldþrotaskiptin. Ef skuldari telur ástæðu til að fá mál sitt endurskoðað innan stjórnsýslunnar getur hann kært til ráðherra synji umboðsmaður honum um fjárhagsaðstoð.

Þetta frumvarp er samið og unnið í samstarfi velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins að höfðu samráði við umboðsmann skuldara. Það ætti þannig að koma til móts við þann hóp sem er hvað verst settur, hefur ekki gagn af öðrum úrræðum og hefur ekki fjármuni til að leggja út fyrir þessari tryggingu. Það er von okkar að með þessu sé hægt að hjálpa fólki að leysa úr sínum vanda og byrja upp á nýtt.

Það sem ég vil líka nefna er að samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þetta sé varanlegt ákvæði eða verði varanleg lög. Ég hvet nefndina eindregið til að skoða hvort rétt sé að setja sólarlagsákvæði á lögin, hvort rétt sé að hafa þetta tímabundna löggjöf til að aðstoða þann hóp sem er hvað verst staddur þannig að á þeim tíma, ef það yrði niðurstaða nefndarinnar að rétt væri að gera það, gæti velferðarráðuneytið í samstarfi við innanríkisráðuneytið og umboðsmann skuldara farið yfir hvort betra sé að koma þessu fyrir með öðrum hætti. Það hefur verið bent á að það gæti verið rétt að hafa sérstakan skiptastjóra sem tæki að sér bú sem væru ekki með neinar eignir og það væri hjá ríkinu. Þá er þar með ekki greitt af þessu gjaldi sem er tekið af fjármálafyrirtækjum og væri hægt að koma því fyrir hjá öðrum stofnunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að nefndin fari mjög vel yfir hvort það sé rétt að gera það eða ekki.

Það er mjög mikilvægt að mínu mati að þetta mál verði afgreitt fyrir þinghlé. Þar sem gert er ráð fyrir að þessi fjárhagsaðstoð sé greidd með gjaldi sem tekið er til að fjármagna umboðsmann skuldara þarf að samþætta það við efnahags- og viðskiptanefnd og það frumvarp sem liggur þar um gjaldtöku vegna umboðsmanns skuldara. Það kemur fram í kostnaðarumsögninni að gert er ráð fyrir því að allt að 500 manns geti þurft á þessu úrræði að halda. Þetta eru ekki allir sem hafa fengið synjun um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara, en samt ansi stór hópur ef þetta gengur eftir. Ég held að það hafi verið talið á sínum tíma þegar lög um greiðsluaðlögun fóru fyrst í gegnum þingið að það væri svipaður fjöldi sem mundi fara í gegnum greiðsluaðlögunina eins og er verið að nefna hér varðandi þetta.

Það er á mörkunum hvar þetta mál á að vera en eftir að hafa ráðfært mig við þingið tel ég rétt að frumvarpinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar. Vonandi fær það góða afgreiðslu þar og kemur fljótt aftur inn í þingsal.