143. löggjafarþing — 34. fundur,  12. des. 2013.

fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

233. mál
[01:45]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, þ.e. frumvarp til laga um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Ég fagna því að frumvarp þetta er komið fram og tel að það sé skref í rétta átt. Auðvitað er ekki auðvelt að fara í þrot og jafnframt er ekki auðvelt að horfa á eftir einstaklingum og heimilum fara í þrot. Ég held að það hljóti alltaf að vera erfið skref fyrir þá sem standa í þeim sporum að missa heimili sín. Það er heldur ekki auðvelt fyrir einstaklinga og heimili að vera hundelt af fjármálastofnunum út í hið óendanlega og vita að enginn möguleiki er á að standa við þær greiðslur sem standa þarf skil á að gera sér grein fyrir því að gjaldþrot sé raunveruleg staðreynd. Hópur einstaklinga og heimila sem eru í slíkri stöðu hafa ekki getað klárað þetta erfiða ferli og hafa ekki getað farið í þrot þar sem fjármálastofnanir leika þann leik að elta viðkomandi út í hið óendanlega og krefjast því ekki gjaldþrotaskipta þannig að enginn möguleiki er að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þeir einstaklingar og heimili þurfa að geta að nokkrum tíma liðnum byrjað upp á nýtt. Einstaklingar og heimili þurfa að fá tækifæri til þess. Ég tel að það verði gert auðveldara með þessu frumvarpi.

Vissulega á að standa skil á skuldbindingum sínum ef einhver möguleiki er á og fjárhagsleg geta er fyrir því. Mér finnst mjög mikilvægt það sem kemur fram í frumvarpinu um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta, að þeir sem óska eftir þeirri aðstoð þurfa að fara í gegnum ákveðið ferli hjá umboðsmanni skuldara þar sem efnahagur, tekjur og fjölskyldustærð eru tekin til greina. Jafnframt þarf að telja til allar eignir, en það er nauðsynlegur þáttur í þessu mati. Mér finnst það sanngjarnt í ljósi þess að um fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera er að ræða. Einnig er jákvætt að ef umboðsmaður skuldara synjar beiðni um slíka fjárhagsaðstoð er hægt að kæra það til ráðherra samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Ég tel því að frumvarpið sé skref í átt að réttlæti. Ég er ánægð með að sjá það.