143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Það er skemmst frá því að segja að mér var ekki boðið á stofnfund félags jákvæðra, [Hlátur í þingsal.] enda kem ég hingað upp til að ræða pólitík. Ég ætla að ræða það hvernig við sjáum hér skýrari línur hægri stjórnar sem þyrmir ekki þeim sem minnst hafa en fer mjúkum höndum um þá sem mest hafa í flausturslegum niðurskurði sínum.

Árið 2010 var mesta niðurskurðarár í fjárlögum frá hruni. Það ár var innleidd sérstök desemberuppbót fyrir atvinnulausa enda var talið að staða þeirra eftir hrun væri slík að það yrði að veita þeim fé til að geta haldið jól með mannsæmandi hætti. Nú, fjórum árum síðar, það var sem sagt í desember 2009 sem við veittum fé í þetta, er hin unga hægri stjórn ekki aflögufær. Það vantar 240 milljónir upp á í fjáraukalögum og miðað við þær fjárhæðir sem hafa flogið fram og til baka með flausturslegum hætti, og enginn virðist vita hvað eru tillögur ríkisstjórnar, meiri hluta eða hvað er í gangi, tel ég mikil sóknarfæri fyrir þingið. Það hefur komið ákall frá félags- og húsnæðismálaráðherra sem ekki hefur náð þessum tillögum í gegn, hvorki í gegnum meiri hluta fjárlaganefndar né ríkisstjórnina, heldur biðlar til þingsins að beita sér með henni. Ég hvet þá stjórnarþingmenn sem hér eru að sýna jákvæðni í verki og standa með þeim sem eru án atvinnu á Íslandi; þeir eru 6.233 í dag.