143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég bara varð að koma hingað upp til að ræða að gefnu tilefni umfjöllun fjölmiðla um það sem gerist í sölum Alþingis og um þá vinnu sem hér fer fram.

Ég er verulega, og þá meina ég verulega óánægð með þá umfjöllun sem birtist í fjölmiðlum í dag um mig og það sem ég á að hafa sagt og gert á þingflokksfundum. Ég hef þegar þurft að leiðrétta þennan fréttaflutning og ég ætla rétt að vona að það komist skýrt til skila. Augljóst er að þeir sem hafa talið sér hag í því að koma höggi á mig hafa ekki haft réttar upplýsingar eða hafa viljað koma rangindum út í umræðuna.

Það er sorglegt að horfa upp á fréttaflutning þar sem ruglað er saman mörgum óskyldum málum og þau tengd á hátt sem á ekki við nein rök að styðjast.

Staðreyndin er sú að aðgerðaáætlun um lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána mun loksins koma til framkvæmda. Eftir slíkri leiðréttingu hefur verið beðið í mörg ár. Ég er ánægð með leiðréttinguna og ég tel að hún hefði þurft að koma mun fyrr, eins og framsóknarmenn hafa talað fyrir síðan 2009.

Það er skammarlegt að horfa upp á það hvernig fjölmiðlar reyna að snúa út úr því sem gerist í þingsal og í þinginu. Það er ekki síður leitt að horfa upp á að samskipti þingmanna á þessum vinnustað skuli ekki vera betri en svo að þeir telji sér til tekna að leka röngum upplýsingum í fjölmiðla um samstarfsfólk sitt. Þetta er til skammar.