143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Niðurskurður í ríkisrekstri og niðurskurður á fjárframlögum er dauðans alvara og er hver ákvörðun erfið. Við í stjórnarmeirihlutanum höfum legið nokkuð undir ámæli stuðningsmanna fyrri ríkisstjórnar fyrir að lækka framlög til þróunarmála úr 0,26% af vergri landsframleiðslu í 0,23% núna. Þau voru reyndar 0,21% næstu ár á undan.

Ég velti þessu svolítið fyrir mér vegna þess að menn hafa sagt með vandlætingu: Við mundum ekki gera svona o.s.frv. Ég fór því að velta fyrir mér hvað hefði orðið til þess að þessi framlög hækkuðu upp í 0,26% fyrir tveimur árum. Það kom í ljós í Morgunblaðinu í gær, herra forseti, þar sem vitnað er í Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra og nú hv. þingmann, sem segir í bók sinni að til hafi staðið að skera þróunaraðstoð niður í fyrra um 500 millj. kr. Og hvers vegna var það ekki gert? Vegna þess að sami hv. þingmaður leitaði án mikils árangurs fundar þess fjármálaráðherra sem gegndi starfi þær vikurnar til að fá þessu hnekkt. Það tókst þegar hann hótaði því að sprengja stjórnina í loft upp. Þessar 500 milljónir og þessi hækkun á þróunaraðstoð í fyrra var því eins konar lausnargjald, lausnargjald svo að vinstri stjórnin gæti lifað út heilt kjörtímabil.

Ég verð að segja, herra forseti, að eftir þessar fregnir er ég hálfu stoltari en fyrr yfir því að við skyldum þó ná því að hafa þróunaraðstoð 0,23% af vergri landsframleiðslu þetta árið.