143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til þess að þakka stjórnarandstöðunni fyrir ágætt samstarf í þinginu í gær varðandi það að heimila að taka á dagskrá og mæla fyrir tveim stjórnarfrumvörpum sem ég tel að sé ágætissamstaða um að reyna að vinna vel en hratt í gegnum þingið. Þetta eru mál er varða frestun á nauðungarsölum frá hæstv. innanríkisráðherra og gjaldþrotaskipti og kostnað vegna þeirra. Þessum málum var báðum vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og við áttum fund í morgun þar sem við byrjuðum að vinna málið um nauðungarsölur. Í þessum töluðu orðum erum við að skipuleggja gestakomur vegna þess máls. Þetta er allt saman unnið í góðri samvinnu allra flokka í þinginu.

Mig langaði einfaldlega að gefnu tilefni að lýsa því yfir að ég fagna því sérstaklega að menn, þrátt fyrir miklar annir hér í desember og ákveðinn núning sem við könnumst við á síðustu dögum þingsins og þá spennu sem hér ríkir, taki þannig á málum. Ég vona að sá andi varðandi þessi tvö mál haldi sér svo að við náum að eyða þeirri óvissu og þeim efasemdum sem þeir sem þessar aðgerðir heyra undir hafa í brjósti sér og að við náum að klára þetta hið fyrsta, en þó með þeim hætti að við vöndum okkur eftir því sem kostur er. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)