143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um fjáraukalagafrumvarpið. Eins og hér hefur komið fram erum við að gera upp árið 2013. Við verðum að vera meðvituð um að staðan er þar miklu verri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Hér var fullyrt að fjárlögin fyrir árið 2013 væru hallalaus. Því fer því miður víðs fjarri. Hallinn verður 30 þús. milljónir og ef menn eru að vísa til þess að það séu aðgerðir nýrrar ríkisstjórnar geta menn ekki komist að annarri niðurstöðu en að þær nái að hámarki 15% af þeirri upphæð.

Þetta er sú staða sem við búum við. Það er því sérstakt að þegar fyrrverandi ríkisstjórn skilur við með þessum hætti komi hún og segi að það vanti peninga hér og þar. Ef svo er, sem svo sannarlega er, er það vegna verka fyrri ríkisstjórnar.