143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að sjá að nefndin hefur lokið störfum. Í öllum meginatriðum er málið að klárast eins og upp var lagt með við framlagningu þess, enda mjög langt liðið á árið og ekki við því búast að mörg tilefni verði til að setja nýja hluti í fjáraukalög 2013 þegar örfáir dagar lifa af árinu.

Þó standa nokkur atriði upp úr við fjáraukalagagerðina að þessu sinni, í fyrsta lagi að það er óvenjulítið frávik á gjaldahliðinni miðað við það sem sagt var í fjárlagafrumvarpi ársins. Það segir okkur að ný ríkisstjórn hefur að minnsta kosti ekki fundið mörg ný tilefni til útgjaldaauka eftir að hún tók við á yfirstandandi ári. Í sögulegu samhengi eru frávikin í fjáraukalagafrumvarpinu að þessu sinni mjög lág en frávikin eru hins vegar mjög há á tekjuhliðinni. (Forseti hringir.) Það sem stendur upp úr, meginniðurstaða fjáraukalagafrumvarpsins, er að tekjuáætlun ársins er langt frá því að standast og það er ekki vegna ákvarðana nýju ríkisstjórnarinnar.