143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er dálítið sérkennilegt að hlusta á hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson tönnlast á 30 milljarða halla á ríkissjóði. Ég er hérna með í höndunum þingskjal, breytingartillögur meiri hlutans, meðal flutningsmanna er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, og þar er gert ráð fyrir að hallinn á ríkissjóði verði 19,8 milljarðar. Samt hefur hv. þingmaður um það bil 20 sinnum undanfarna daga tuðað um þetta.

Hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað og segir að tekjuáætlun sé víðs fjarri því að standast, en þá er ég aftur með skjal í höndum um greiðsluafkomu ríkissjóðs janúar–október 2013, tíu mánaða uppgjör ríkissjóðs á þessu ári. Hvað stendur þar? Innheimtar tekjur ríkissjóðs námu 447,5 milljörðum kr. á fyrstu tíu mánuðum ársins sem er 8,7% aukning frá sama tímabili í fyrra. Og áfram: Þetta er 0,9% undir áætlun.

Það eru mjög misvísandi upplýsingar í opinberum gögnum sem við erum með fyrir framan okkur annars vegar og hins vegar þeim (Forseti hringir.) rembingi stjórnarliða að draga hér alltaf upp ýtrustu dekkstu mynd í pólitísku skyni.