143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Liður 5.1.1.1 sem verið er að greiða atkvæði um hér er mínustala á þessu blaði upp á 3 milljarða. Það þýðir að það vantar 3 milljarða upp á virðisaukaskattstekjur ársins miðað við það sem við gerðum ráð fyrir í fjárlögum.

Það er hins vegar rétt sem hér hefur komið fram, að ný ríkisstjórn ákvað að hækka ekki virðisaukaskatt á ferðaþjónustu með sérstökum rökum sem fram komu í þeirri umræðu, en eftir situr að það vantar 3 milljarða upp á virðisaukaskattstekjur ársins. Sem betur fer urðu þetta ekki 5 milljarðar eins og við óttuðumst framan af fjárlagagerðinni en hærri virðisaukaskattstekjur á síðari hluta þessa árs eru merki um að skattstofninn sé að taka við sér og það mun hafa áhrif inn í næsta ár. Það eru jákvæð merki, munu sem sagt hafa jákvæð áhrif á næsta ári, en varðandi virðisaukaskattinn er mikilvægt að hafa í huga að við ætlum að taka þrepaskiptinguna til heildarendurskoðunar, vonandi í þverpólitískri sátt, þannig að dregið verði úr hinum mikla mun (Forseti hringir.) á milli þrepanna.