143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sönnu ánægjulegt að hér er breytt áætluðum tekjum af virðisaukaskatti til verulegra bóta frá því sem fjáraukalagafrumvarpið var. Þar var gert ráð fyrir lækkun tekna upp á rúma 5,5 milljarða. Hér er lögð til lækkun upp á 3 milljarða nokkurn veginn slétta og eru þá enn inni í þeirri tölu tapaðar virðisaukaskattstekjur vegna virðisaukaskatts á hótelgistingu og gistiþjónustu sem örugglega hefðu skilað meiru en þeim 500 milljónum sem gert var upphaflega ráð fyrir í ljósi mikillar aukningar á gistinóttum í tengslum við fjölgun ferðamanna á þessu ári.

Breytingarnar eru flestar í þessa átt. Þó að óbeinir skattar séu vissulega veikari en gert var ráð fyrir í fjárlögum eru þær tekjur að koma til baka þannig að svartsýnisáróðursupphlaup forustumanna ríkisstjórnarflokkanna í vor hefur sem betur fer að þó nokkru leyti reynst án innstæðu — enda pólitískt upphlaup.