143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[11:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um lið 15.2 sem heitir Sala á réttindum. Til að útskýra það aðeins betur er það útboð Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðniréttindum í 4G–kerfinu sem samkvæmt lögum fjarskiptasjóðs frá 2005 hefði átt að renna þar inn til að, eins og áform voru um, að nota það til að bæta fjarskiptasamband á landsbyggðinni. Í tillögum meiri hlutans er verið að taka þessar mörkuðu tekjur beint inn í ríkissjóð, eins og á svo mörgum öðrum stöðum, sem gerir það að verkum að á landsbyggðinni verður þessi peningur ekki notaður til að bæta fjarskiptasamband á þeim stöðum þar sem það er slæmt.

Ég vil vekja athygli á því og vekja athygli stjórnarþingmanna á landsbyggðinni sem hafa talað hátt um bætt fjarskipti á landsbyggðinni á því að með því að samþykkja þessa tillögu hér verður ekkert gert í því hvað það varðar.