143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Kosturinn við þá atkvæðagreiðslu sem við erum að fara í núna er sá, eins og hér hefur komið fram, að það er komin niðurstaða. Þetta eru aðlögunarstyrkir eins og allir hafa bent á, þetta gengur út á það að aðlaga ríki að regluverki Evrópusambandsins. Við þurfum ekki að ræða það lengur. Nokkrum milljörðum seinna erum við komin að niðurstöðu hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Það útheimtir líka að við borgum á móti. Það er algerlega ljóst, og menn geta bara farið á vísindavefinn til að kanna það, að ef við förum í Evrópusambandið þá þurfum við að borga með okkur í því. Það er líka rétt, sem hæstv. utanríkisráðherra benti á, að þetta er þvert á það sem tollabandalagið sagði þegar stefnu var breytt hjá ríkisstjórninni, að þeir ætluðu að haga sér með öðrum hætti.

En kosturinn við þessa atkvæðagreiðslu er sá að nú þurfum við ekkert að ræða þetta lengur. Þetta eru aðlögunarstyrkir fyrir land sem vill ganga í Evrópusambandið en við höfum breytt um stefnu og þar af leiðandi falla þessir styrkir niður.