143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:12]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að það er skringilegt að við séum með afmarkaða skatta eða svokallaðan nefskatt á hina og þessa stofna og það renni þá ekki óskipt til þeirra stofna eins og til dæmis nefskattur RÚV. Ég man eftir að ríkisstjórnin, eða í það minnsta Framsóknarflokkurinn, talaði mikið um ljós í fjós og ég hélt að þetta væri liður í því og ég skora á hv. þingmenn Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd að efna loforðið. Ef gæta á einhvers konar jafnræðis og ef landsbyggðin á rétt á einhverju þá á hún rétt á jafnræði í að geta tekið þátt í gegnum netið í þeim fjölmörgu verkefnum sem verið er að berjast fyrir að gera og ekki síður allri þeirri þjónustu sem þar fer fram og er alltaf að verða í ríkari mæli í gegnum netið.