143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við erum að fara að greiða atkvæði um það sem minni hluti fjárlaganefndar telur alveg einsýnt að sé ófyrirséður atburður sem veldur kostnaði. Óvenjuskæður faraldur gekk yfir á fyrri hluta þessa árs sem Landspítalinn þurfti að bregðast við, það var inflúensa, það voru nórósýkingar og það voru RSV-sýkingar. Marga þurfti að setja í einangrun og starfsfólk veiktist líka þannig að veikindi voru 30% yfir því sem er að meðaltali. Við leggjum til að kostnaðurinn lendi ekki á spítalanum sjálfum, enda hafði fyrri ríkisstjórn samþykkt á fundi sínum að lagt yrði til að þessi upphæð yrði samþykkt í fjáraukalögum. Það er mjög slæmt fyrir stofnanir að fá skilaboð um að þær þurfi ekki að hagræða fyrir óvæntum kostnaði sem síðan eru dregin til baka af næstu stjórnvöldum.