143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:20]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við erum hér að fjalla um tillögu vegna máls þar sem Landspítalinn leitaði til velferðarráðuneytisins og sem fór inn í ríkisstjórn í janúar á þessu ári, út af ástandi sem skapaðist vegna sjúkdóma, inflúensufaraldurs og alls kyns sjúkdóma. Það var óvenjuvel að málinu staðið að því leyti að það var fyrir fram óskað eftir því að fá heimild til að ráðstafa meiri peningum til að bregðast við ástandinu. Ríkisstjórnin gaf grænt ljós á það. Síðan var farið mjög vandlega yfir öll útgjöldin og afgreitt í ríkisstjórn formlega í apríl að í þetta ættu að fara 125 millj. kr.

Hér eru skilaboðin þau til stofnana sem hafa treyst á stjórnvaldið á þeim tíma að ekki sé orð að marka stjórnvöld. Þetta finnst mér ekki boðleg afgreiðsla, ekki í neinu tilfelli. Þarna voru ófyrirséð útgjöld og farið fram með eins vönduðum hætti og hægt var og síðan ætla menn, sýnist mér, einnig nýir þingmenn, þegjandi og hljóðalaust að greiða atkvæði og auka hallann á Landspítalanum á þessu ári. Ég segi já við þessari tillögu. Ég tel okkur skylt að afgreiða hana með jákvæðum hætti og harma ef hún verður felld.