143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:43]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér verða greidd atkvæði um allmarga liði sem eru merktir 2, 3, 5, 6, 7 og 8 á þessu plaggi. Við gerðum mjög skýra grein fyrir því í umræðum að við hefðum mjög miklar efasemdir um þetta vinnulag þar sem verið er annars vegar að blanda saman ólíkum liðum og færa á milli liða og hins vegar að færa útgjöld sem lágu fyrir á þessu ári yfir á næsta ár á sama tíma og fjárlög eru opin. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum gert miklar athugasemdir við þetta vinnulag og mér skilst að málið verði tekið til skoðunar í hv. fjárlaganefnd og Ríkisendurskoðun komi á þann fund til að kanna hvort slíkt vinnulag standist. Meðan það liggur ekki fyrir leggjumst við gegn þessu mixi.