143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:48]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin og meiri hluti í fjárlaganefnd Alþingis lagði til að framlag til Rannsóknasjóðs yrði skert um 221 millj. kr., til Tækniþróunarsjóðs um 150 millj. kr. og til Markáætlunar á sviði vísinda og tækni um 200 millj. kr. Þessu var mótmælt mjög harðlega víða í þjóðfélaginu af hálfu Samtaka iðnaðarins, af hálfu vísindamanna, ekki síst ungra vísindamanna, og bent var á að þetta bæri vott um skammsýni og skilningsleysi á mikilvægi nýsköpunar. Andófið, gagnrýnin og málefnaleg umræða utan þings og hér í þingsal hefur nú skilað nokkrum árangri því að fallið hefur verið frá skerðingunni í Rannsóknasjóðinn og í Tækniþróunarsjóðinn en eftir stendur (Forseti hringir.) skerðingin í Markáætlun á sviði vísinda og tækni.

Ég fagna (Forseti hringir.) þeim breytingum sem gerðar hafa verið en minni á að til (Forseti hringir.) stendur að ræða fjárlagafrumvarpið því þar standa (Forseti hringir.) enn tillögur um skerðingar.