143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:51]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við vitum það úr fræðunum að samkeppnisforskoti til lengri tíma er aðeins náð með þekkingu. Við getum náð tímabundnu samkeppnisforskoti með lágum launum en ef hugsa á til lengri tíma er því náð með þekkingu. Það er því mjög gleðilegt að lækkun til Rannsóknasjóðs sé tekin til baka. Ég vona svo í ljósi þeirrar umræðu sem er í samfélaginu og þess að á vettvangi umræðu um aukna hagsæld á Íslandi o.s.frv. er talað um að við þurfum, ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram, að tryggja stækkun alþjóðageirans á tímabilinu um 20% — því verður aðeins náð fram með nýsköpun. Ég vona að ríkisstjórnin gefi í. Ef hún ætlar að vera með fjárfestingar almennt til að byggja upp atvinnulífið verður hún að setja peningana sína þangað. Það er hið besta.