143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[12:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er að finna þessa undarlegu liði sem lúta að því sem hefur verið kallað skítabix af hálfu menntamálaráðuneytisins í umræðu um fjáraukalögin, þar sem verið er að flytja til fjárheimildir sem eiga að vera til verkefna á yfirstandandi ári yfir á næsta ár í allt önnur verkefni. Meiri hluti fjárlaganefndar átelur það harðlega en flytur samt þessa tillögu.

Það er auðvitað saga til næsta bæjar að meiri hlutinn skuli með þessum hætti setja ofan í við menntamálaráðherrann og það er ljóst af málatilbúnaði meiri hlutans að hér er gengið í það minnsta mjög nærri fjárreiðulögum ef þau eru ekki klárlega brotin því að verið er að flytja fjárheimildir milli ára sem er ekki heimilt að gera. Ráðherrann hefur ekki séð sóma sinn í að koma hingað inn í þingið og útskýra þau verkefni sem hann er að setja mörg hundruð milljónir í og (Forseti hringir.) hann hefur ekki heldur komið með formlegar fjárlagatillögur. Ég held að óhjákvæmilegt sé vegna þessa máls, fyrst stjórnarmeirihlutinn ætlar að samþykkja þetta, að málið verði kallað inn til nefndarinnar milli umræðna og fulltrúar Ríkisendurskoðunar — (Gripið fram í.) ég veit það — geti sagt álit sitt á þessu. (Gripið fram í.)Já, já og ég þakka það.