143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:03]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er aftur að gerast það sama með Rannsóknasjóð; þ.e. að menn gerðu mistök þegar þeir skiluðu inn fjáraukalagafrumvarpinu sem hér er verið að leiðrétta. Það er því verið að færa útgjöldin á þessu ári í sama horf og lagt hafði verið upp með vegna þess að úthlutunarferlið var farið af stað.

Ég verð að nefna það hér — vegna þess að það er engin stefnubreyting fólgin í þessu. Við sjáum að menn ætla að halda áfram af fullum krafti að skera niður Tækniþróunarsjóð á næsta ári. Það felur að mínu mati í sér fullkomna skammsýni og fullkomlega er verið að grafa undan framtíðarvexti í útflutningsgreinum á Íslandi.

Það kom frétt í gær sem sýndi okkur að hjá13 fyrirtækjum sem fengu úthlutað úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 þá jókst heildarvelta þeirra frá þeim tíma frá 20 milljörðum upp í 118 milljarða kr. Tækniþróunarsjóður skiptir máli til að styðja við nýsköpun í landinu. Hann skiptir máli til að styðja við vöxt í samfélaginu til lengri tíma. Þess vegna tel ég að ríkisstjórnin sé á kolrangri braut með þessum niðurskurðarákvörðunum sínum.