143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Nýsköpun og sprotafyrirtæki eru grundvallaratriði fyrir alþjóðlega geirann, þ.e. geira þeirra fyrirtækja sem eru ekki föst á Íslandi vegna auðlinda eða slíks. Þau geta flutt sig til útlanda. Það er gríðarlega mikilvægt að ný fyrirtæki komi upp og að við fjárfestum í nýsköpun.

Ég mun að sjálfsögðu greiða atkvæði með því að ekki verði skorið niður í Tækniþróunarsjóði.

Ég bendi Sjálfstæðisflokknum sérstaklega á að hann tók í sumar slæma efnahagsákvörðun. Sá geiri atvinnulífsins sem hvað best gæti staðið undir skattlagningu, sjávarútvegurinn, var ekki skattlagður, þ.e. fallið var frá þessum sérstöku veiðigjöldum, þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hefur svolítið að vinna þegar kemur að góðum efnahagsákvörðunum. Þetta er skref í rétta átt og ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn taki forustu í því að efla nýsköpun á Íslandi eins mikið og hægt er. Til frambúðar er þetta góð fjárfesting, (Forseti hringir.) jafnvel þótt taka þurfi svolítið lán fyrir henni. Það þarf að passa sig sérstaklega á því að (Forseti hringir.) pissa ekki í skóinn sinn hvað þetta varðar.