143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er engin ástæða til að greiða atkvæði með ríkisstjórnarmeirihlutanum í þessu máli því að hann er ekki að breyta um stefnu á nokkurn hátt. (Gripið fram í.) Hann er að hrekjast út í horn undan eigin mistökum (Gripið fram í: Rangt.) og það er engin ástæða til að verðlauna hann fyrir það. [Kliður í þingsal.]

Þessi ríkisstjórnarmeirihluti skilur ekki hugmyndina um fjárfestingar í framtíðinni. Hér heyrum við sönginn frá ráðherrunum aftur og aftur: Það eru ekki til peningar. Það eru ekki til peningar.

Það er ekki til neitt verkefni sem betra er til þess fallið að taka lán fyrir hjá framtíðinni en fjárveitingar í Tækniþróunarsjóð. Ef við horfum á fyrirtækin sem fengu framlög úr Tækniþróunarsjóði 2005 sést að starfsmannafjöldinn árið 2012 hefur farið úr 500 í 1.000. Framlög ríkisins hafa komið til baka 20- til 40-falt. (Gripið fram í: Frábært.) Það er ekkert verkefni betra en þetta. (Gripið fram í.) Þessi afstaða ríkisstjórnarinnar sýnir hins vegar að hún skilur ekki neitt annað en kyrrstöðu og fábreytni í atvinnulífi. (Gripið fram í: Og þess vegna sitjið þið hjá!)