143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[13:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er dæmi um afar sjúskaða vinnu því hérna er felldur niður liðurinn Græna hagkerfið með þeim orðum, sem koma örugglega milli 200 og 300 sinnum fyrir í fjáraukalagafrumvarpinu, að forsendur um fjármögnun gangi ekki eftir, það vanti peningana. Svo kemur þessi furðuliður númer 01-305 sem er stærsta ráðherraskúffan í Stjórnarráðinu. Það er skúffa hæstv. forsætisráðherra utan um gæluverkefni hans og forgangsverkefni, mörg örugglega verðug en ég veit ekki um neinn annan ráðherra sem er með 165,5 millj. kr. skúffu í sínu ráðuneyti og svo er hér fjárlagaliður sem er eins og niðursoðin útgáfa af stefnuræðu forsætisráðherra.

Þessi vinnubrögð eru með algerum ólíkindum og ekki til marks um gagnsæi heldur einhverja algerlega furðulega nálgun sem er ekki sómi að og á ekkert skylt við þá mikilvægu (Forseti hringir.) og tímamarkandi þverpólitísku samstöðu sem hér náðist í í þinginu um grænt hagkerfi.