143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014, verðlagsbreytingar og fleira, en það er að finna á þskj. 315 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir það frá orði til orðs.

Á fund nefndarinnar komu 22 gestir og 22 nefndarálit bárust. Meiri hlutinn fagnar því sérstaklega hve rúmur tími gafst til að gaumgæfa málið. Málið var lagt fram 1. október, var rætt hér á hinu háa þingi 8. október. Haldnir voru um það 12 fundir. Það hefur verið í vinnslu í tæpa tvo mánuði þar til nefndarálit er ritað. Þetta eru vinnubrögð sem ég tel vera mjög til sóma og vonandi að menn taki það sem víðast upp.

Í þjóðhagsspá Hagstofunnar frá 15. nóvember síðastliðinn kemur endurskoðuð þjóðhagsspá. Þar er gert ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 0,3% meira á þessu ári en áður hafði verið gert ráð fyrir, auk þess sem atvinnuvegafjárfestingar reyndust meiri og innflutningur minni á fyrra helmingi 2013. Gert er ráð fyrir 2,5% aukningu landsframleiðslu á árinu 2014. Verðbólguhorfur hafa versnað lítillega og efnahagshorfur í helstu viðskiptalöndum eru svipaðar og áður hafði verið gert ráð fyrir. Atvinnuvegafjárfesting mun líklega dragast saman um 3,1% á árinu 2013 en stóriðjufjárfesting nær hámarki 2015–2016. Fjárhagsstaða heimila og fyrirtækja heldur áfram að batna.

Þetta segir í endurskoðaðri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands.

Nefndin ræddi sérstaklega um verðlagsuppfærslu skatta og gjalda, það var mikið rætt. Skilningur meiri hlutans er sá að það sé rétt sem haldið er fram að verðlagsuppfærslur skatta og gjalda geti verið verðbólguhvetjandi í sjálfu sér. Á móti kemur að ef látið er hjá líða að ráðast í slíkar hækkanir skapast hætta á að raungildi skatta breytist með handahófskenndum hætti, þ.e. ef ekki er hækkað, sama krónutalan, er það í raun verðbólgan sem ræður raunlækkun skatta.

Í ljósi þess telur meri hlutinn að að jafnaði fari betur á því að þeirri reglu sé fylgt að uppfæra skatta og gjöld reglulega. Meiri hlutinn telur brýnt að tekið verði til skoðunar hvaða aðrar leiðir eru færar til að mæla og skattleggja vegnotkun en bensíngjald og bifreiðagjöld. Það má nefna að slíkar hugmyndir voru ræddar á fundi nefndarinnar fyrir allmörgum árum. Þetta er sagt í ljósi þess að fram hafa komið mjög neyslugrannir bílar og hybrid-bílar sem nota fallorku og hreyfiorku og eins eru að koma fram rafmagnsbílar — þeir bílar greiða ekki til vegnotkunar þó að þeir óneitanlega noti vegina.

Þá var rætt nokkuð um kostnað við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í 12. gr. frumvarpsins er lögð fram breyting á álagningarhlutföllum og stærðum eftirlitsgjalds samkvæmt 5. gr. laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Til grundvallar lækkunum liggja upplýsingar um áætlaðan rekstrarafgang Fjármálaeftirlitsins í árslok 2013 og hagræðingarkröfu fjárlagafrumvarps 2014. Það er sem sagt gert ráð fyrir að lækka þessi gjöld. Miða þessar tillögur að því að tekjur Fjármálaeftirlitsins af eftirlitsgjaldi 2014, vegna opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi, endurspegli tekjuheimild stofnunarinnar samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2014.

Þá var rætt um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki en í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að frádráttur frá álögðum tekjuskatti lækki úr 20% í 15% af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna nýsköpunarfyrirtækja. Meiri hlutinn telur mögulegt að ná sama markmiði með öðrum hætti þannig að dregið verði úr áhrifum á minni nýsköpunarfyrirtæki sem oft eiga erfiðara um vik að sækja fjármögnun en þau stærri. Leggur meiri hlutinn til breytingu á frumvarpsgreininni, að í stað þess að í henni verði kveðið á um lækkun frádráttarhlutfalls útlagðs kostnaðar verði þak hámarkskostnaðar við útreikning á frádrætti lækkað. Það var reiknað þannig að það gæfi sömu niðurstöðu. Með því móti verður útgjaldamarkmiðum frumvarpsgreinarinnar náð, en á sama tíma er dregið úr áhrifum breytinganna á smærri fyrirtæki í nýsköpun.

Þá var rætt um skrásetningargjald háskóla. Sú skoðun kom fram að hækkun skrásetningargjalds torveldaði jöfnun tækifæra til náms; þeir sem væru tekjuminni hefðu ekki sömu tækifæri til náms vegna hækkunar gjaldsins. Hins vegar var bent á að framlag til háskólans hefur lækkað samkvæmt fjárlagafrumvarpi og það þarf að bæta honum upp það tekjutap, auk þess sem nemendur opinberra háskóla greiddu mjög lítinn hluta námskostnaðar.

Að mati meiri hlutans er hækkunin studd sterkum rökum. Brýnt virðist orðið að koma til móts við fjárþörf opinberra háskóla. Með hvaða hætti það verður gert eru menn þó ekki sammála um. Telur meiri hlutinn að hækkun skólagjalda kunni að hvetja námsmenn til að nýta betur það nám sem opinberir háskólar bjóða upp á og styður þá tillögu að hækka skrásetningargjaldið.

Þá var rætt um fæðingar- og foreldraorlof. Í ljós hefur komið að feður taka í síauknum mæli minni hluta eða hlutfallslega minna foreldraorlof. Sumir telja skýringu þess vera að finna í of lágu hámarki orlofsgreiðslna. Aðrir telja aðra þætti, t.d. breyting á stöðu launþega á vinnumarkaði, nærtækari skýringu. Engu að síður telur meiri hlutinn þær ráðstafanir sem lagðar eru til í frumvarpinu skynsamlegar vegna þess að stefnt er að lækkun útgjalda í þessum málaflokki eins og í fjöldamörgum öðrum.

Þá var rætt um starfsendurhæfingarsjóð. Í 29. gr. frumvarpsins er lagt til að þreföldun greiðslna til atvinnutengdra starfsendurhæfingarsjóða verði frestað um eitt ár. Miklir fjármunir hafa safnast upp hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði, án þess að þeir nýtist. Að mati meiri hlutans er slíkt ekki skynsamlegt þegar tekið er tillit til fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Um síðustu áramót nam eigið fé VIRK starfsendurhæfingarsjóðs um 1.500 milljónum, einum og hálfum milljarði, og hafði vaxið um 400 milljónir á árinu 2012. Meiri hlutinn gerir sér þó grein fyrir að þegar grundvöllur starfsgetumats verður treystur með lögum frá Alþingi og starfsendurhæfingarsjóðirnir fá eðlilega virkni mun verða mjög knýjandi þörf fyrir fjármagn úr ríkissjóði.

Þá var rætt um brottfellingu laga vegna greiðslna Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Sú skoðun kom fram að brottfall laga um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks mundi ekki hafa áhrif á greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði enda ætti fiskverkafólk rétt á bótum úr sjóðnum þegar hráefnaskortur er. Meiri hlutinn telur ljóst að draga verði úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna greiðslna til fiskverkafólks. Á meðan á meðferð málsins stóð var nefndin upplýst um að samráð hefði átt sér stað milli fulltrúa velferðarráðuneytis, Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka fiskvinnslustöðva. Voru þessir aðilar ásáttir um að þeim vinnudögum sem fiskvinnslufyrirtæki eiga rétt á greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði verði fækkað. Þannig verði ekki greitt fyrir fyrstu fimm daga tímabundinnar vinnustöðvunar á fyrri hluta árs 2014 og sömuleiðis á seinni hluta þess.

Meiri hlutinn leggur til breytingar á 30. gr. frumvarpsins sem byggjast á framangreindum tillögum. Með þeim leitast meiri hlutinn við að viðhalda því markmiði laganna að stuðla að starfsöryggi fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga þegar vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts á sama tíma og stuðlað er að lækkun útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs.

Þá var rætt nokkuð um trúfélög og lífsskoðunarfélög og gerð breyting í því skyni að koma lífsskoðunarfélögum inn í frumvarpsgreinina.

Þá var rætt um úrvinnslugjald. Það er tillaga að tveim nýjum köflum, það er annars vegar um úrvinnslugjald og breytingartillögurnar eru lagðar fram í kjölfar samráðs Úrvinnslusjóðs og hagsmunaaðila.

Tekjur Úrvinnslusjóðs af úrvinnslugjaldi ráðast af innflutningi og innlendri framleiðslu á vörum sem falla undir lögin og upphæð úrvinnslugjalds í hverjum vöruflokki. Það á að standast á, tekjurnar eiga að standa undir úrvinnslunni í hverjum vöruflokki. Tillögur um breytingar á úrvinnslugjaldi miðast við að ná viðunandi sjóðstöðu vöruflokka á næstu þremur árum. Miðað er við að sjóðirnir verði að jafnaði ekki lægri en 30% af árskostnaði við vöruflokkinn.

Í fyrsta lagi gerðum við ráð fyrir að skilagjald til bifreiðaeiganda eða eiganda ökutækis verði hækkað úr 15.000 kr. í 20.000 kr., sem er lagt til til að mæta auknum kostnaði eiganda ökutækis við að koma því á söfnunar- eða móttökustöð. Á þeim tíma frá því þetta gjald var fyrst ákveðið hefur orðið 60% hækkun á verðlagi.

Þá voru gerðar tillögur um úrvinnslugjald fyrir plast, að það yrði hækkað. Mikið var rætt um heyrúlluplast í því sambandi, en söfnun þess er mjög dýr, það er mjög dýrt að safna saman heyrúlluplasti.

Þá var rætt um leysiefni og hækkað úrvinnslugjald á því. Olíumálning sömuleiðis, það var hækkað. Það eina sem var lækkað var gjald á blýsýrurafgeyma eða blýrafgeyma vegna þess að heimsmarkaðsverð á blýi hefur hækkað það mikið að það skilar meiri tekjum að vinna þá vöru. Þá var gerð breyting, umtalsverð, á framköllunarefnum, en það er vegna þess að taprekstur er á þeirri grein — markaðurinn hefur fallið saman út af rafrænni ljósmyndun.

Þá komum við að komugjöldum vegna innlagna á sjúkrahús. Tilefni tillögunnar er að í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2014 er gert ráð fyrir að innheimt verði gjald fyrir legudaga á sjúkrahúsum. Þær áætlanir hafa breyst. Nú er lögð til sú breyting á lögum um sjúkratryggingar að tekið verður upp nýtt gjald vegna heilbrigðisþjónustu, þ.e. komugjald vegna innlagna á sjúkrahús. Í samræmi við það er lagt til, í tillögu að nýrri 47. gr., að í 1. málslið 1. mgr. 18. gr. laga um sjúkratryggingar verði vísað til 2. töluliðar 1. mgr. 29. gr. laganna þar sem kveðið er á um komugjald. Ekki er gert ráð fyrir því að innheimta gjald fyrir innlögn vegna fæðinga í samræmi við núgildandi ákvæði. Einnig hefur verið bent á að hugsanlega þyrfti að bæta inn ákvæði um líknardeildir.

Heimild ráðherra, samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laganna, til að kveða nánar á um gjaldið í reglugerð, þar á meðal fjárhæð þess, nær til þessa gjalds eins og annarra þjónustugjalda sem kveðið er á um í þeirri málsgrein. Í reglugerð getur ráðherra þannig kveðið á um hámark komugjalds fyrir einstaklinga sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús oft á ári. Með töku komugjalds vegna innlagna á sjúkrahús skapast meira samræmi og jafnræði í gjaldtöku, enda er tekið komugjald vegna komu á slysadeild, bráðamóttöku og göngudeild, auk gjalds vegna rannsóknar hjá þeim sem ekki eru inniliggjandi.

Þess má geta að gjöld vegna innlagna eru innheimt á sjúkrahúsum í Svíþjóð, Finnlandi og Þýskalandi.

Þá voru tvær greinar eða tvö ákvæði sem varða slysatryggingu og lögboðna ábyrgðartryggingu. Lagt er til að sá sem verður fyrir slysi og nýtur tryggingar samkvæmt 4. kafla laganna um slysatryggingar, og einnig samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækja eða slysatryggingu ökumanns — að eigandinn sæki jafnframt rétt sinn til hlutaðeigandi tryggingafélags ef bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu eða slysatryggingu ökumanns og eiganda en ekki til sjúkratrygginga almannatrygginga, þ.e. að hann sæki fyrst til lögboðinnar ábyrgðartryggingar og síðan til slysatrygginga ef það dugar ekki til, en ekki öfugt eins og verið hefur; að hann fari fyrst til slysatrygginga almannatrygginga, fái þar greitt að fullu og svo er það dregið frá bótum vegna lögboðinna ábyrgðartrygginga.

Breyting samkvæmt þessari tillögu hefur ekki mikil áhrif á heildarbótarétt hins tryggða þar sem hann er í flestu tilliti betur tryggður samkvæmt lögboðinni tryggingu vátryggingafélaganna. Má segja að með þessum tilvikum sé um að ræða tvöfalda tryggingavernd og eru eingreiðslubætur sem viðkomandi fær greiddar úr slysatryggingu almannatrygginga dregnar frá við uppgjör bóta tryggingafélaganna til hins vátryggða og lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns auk eiganda samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Þessi breyting er til þess fallin að einfalda málarekstur hins tryggða og spara honum fyrirhöfn og ríkinu kostnað þar sem ríkið kemur til viðbótar ef ábyrgðartryggingin dugar ekki, en ekki þannig að slysatryggingin er dregin frá bótum samkvæmt ábyrgðartryggingunni.

Í tillögu að nýrri 49. gr. er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við 27. gr. laga um almannatryggingar með síðari breytingum. Í ákvæðinu er fjallað um hvenær einstaklingurinn er talinn vera í vinnu og þar af leiðandi slysatryggður samkvæmt IV. kafla laganna.

Í tillögunni segir að ákvæði 27. gr. gildi ekki ef slasaður er einnig tryggður samkvæmt lögboðinni ábyrgðartryggingu ökutækis og slysatryggingu ökumanns og eiganda og bótaskylda er fyrir hendi samkvæmt þeim tryggingum. Reynist bótaskyldan hins vegar ekki fyrir hendi nýtur viðkomandi lágmarkstryggingar slysatrygginga almannatrygginga. Það er aftur það sama í slysatryggingum að slysatrygging almannatrygginga kemur til viðbótar þegar eða ef ábyrgðartryggingin nægir ekki.

Í tillögu að nýrri 49. gr. segir að sambærilegt ákvæði sé að finna í 4. mgr. frumvarps til laga um slysatryggingu almannatrygginga sem velferðarráðherra lagði fram á 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Lagt er til að ný málsgrein bætist við 32. gr. laganna þar sem kveðið verði á um að kostnaður vegna sjúkrahjálpar sem fellur til þegar liðin eru fimm ár eða meira frá slysadegi greiðist ekki. Það er sem sagt talið að þeim tíma liðnum sé ekki lengur grundvöllur fyrir því að vera með kostnað vegna slysa.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson formaður, Pétur H. Blöndal framsögumaður, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.