143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum að ræða nefndarálit frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, ekki frumvarp fjármálaráðherra. Mér finnst gert frekar lítið úr meiri hluta í hv. efnahags- og viðskiptanefnd með því að kalla til framkvæmdarvaldið til að ræða það sem nefndin er að fjalla um. Þau mál sem hv. þingmaður spurði um koma í umræðu um fjárlögin á föstudaginn. Þá kemur fram hvað menn gera ráð fyrir mikilli veltuaukningu og annað slíkt. Við erum að ræða hér ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga, verðlagsbreytingar og annað slíkt. Það má vel vera að það verði eilítið meiri verðlagsbreytingar, þá hafa skattarnir ekki hækkað nægilega mikið o.s.frv. Varðandi spurningu um persónuafslátt, þegar hann er hækkaður en ekki alveg í sama mæli og þessi gjöld, þá má eflaust ræða það. En ég geri ráð fyrir því að þetta nefndarálit verði rætt í nefndinni milli 2. og 3. umr. þar sem hugsanlega þarf að gera á því einhverjar breytingar til viðbótar.

Ég nefndi áðan varðandi legugjöldin að lagt er til að innlagnir á spítala vegna fæðinga séu undanþegnar, að ekki sé tekið gjald fyrir þær. Ég tel líka nauðsynlegt að sett sé inn ákvæði um að ekki sé greitt fyrir innlagnir á líknardeild.