143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á mjög mörg atriði sem ég vildi gjarnan taka fyrir, en ég ætla að byrja á því að tala um verðlagsuppfærslur í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga.

Nú er það þannig að ég skipti ógjarnan um skoðun og jafnvel ekki við kosningar og jafnvel ekki við stjórnarskipti. Það er svo merkilegt að ég átti viðræður við hv. fyrrverandi formann efnahags- og viðskiptanefndar, Helga Hjörvar, einmitt um þetta atriði fyrir um ári. Þá lagði ég til að þessi gjöld yrðu hækkuð eins og nú, þannig að ég hef ekki skipt um skoðun, hvorki við kosningar, stjórnarskipti eða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut vegna þess að ég tel að ekki sé heppilegt að gjöldin lækki að raungildi með tilviljanakenndum hætti, þ.e. vegna verðbólgu, eða að þau komi í stökkum eða höggum öðru hverju.

Varðandi hækkun skráningargjalda í háskóla er það gert samkvæmt beiðni háskólanna. Þetta er hækkað úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. og svara nokkurn veginn til þess kostnaðar sem kostar að skrá nemanda í háskóla. Það er því einföld skýring á því.

Svo segir hv. þingmaður um fæðingarorlofið að þar sé meiri hlutinn að fylgja flökkusögu en svo er ekki aldeilis því að við tókum sérstaklega fram, með leyfi frú forseta:

„Stefnt er að lækkun útgjalda í málaflokknum. Tíðni foreldraorlofstöku meðal feðra hefur farið lækkandi og telja sumir skýringu þess vera að finna í of lágu hámarki orlofsgreiðslna.“ — Telja sumir. — „Aðrir telja aðra þætti, t.d. breytingar á stöðu launþega á vinnumarkaði, nærtækari skýringu.“

Nefndin sjálf eða meiri hlutinn leggur ekki neitt mat á þetta þannig að hún hleypur ekki á eftir neinum flökkusögum. Hins vegar stendur hún frammi fyrir vanda, ég sé að allt frumvarpið er með það og það eru gífurlegar vaxtagreiðslur ríkissjóðs.