143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:13]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason fjallaði um stuðning við nýsköpun og notaði mjög þung orð. Hann lét að því liggja að meiri hlutinn vildi leggja hana niður, borða útsæði, ætla nýsköpunarfyrirtækjum að lifa á loftinu og að það yrði flótti nýsköpunarfyrirtækja frá landinu.

En hver er raunveruleikinn? Meiri hlutinn leggur til að 20% endurgreiðsla þróunarkostnaðar verði áfram 20%, hann fellur frá lækkun úr 20% niður í 15%. Er honum ekki kunnugt um það? Aðeins hámarkið er lækkað úr 100 milljónum í 75 milljónir sem hefur eingöngu áhrif á allra stærstu fyrirtækin en gagnast hins vegar að fullu smærri fyrirtækjunum. Það eru líklega 100 fyrirtæki sem munu njóta.

Hvernig hefur stuðningurinn vaxið? Árið 2011 var hann 500 milljónir, árið 2012 var hann 800 milljónir og það er fyrirsjáanlegt að árið 2014 og 2015 verði hann yfir 1 þús. milljónir. Það er ekki verið að hætta við neitt. Það er ekki verið að fella niður stuðning. Auðvitað mundum við vilja gera meira í þessu. Þetta er ein besta fjárfesting sem hægt er að gera, en það má ekki mála skrattann á vegginn eða gera meiri hlutanum upp einhvern illan ásetning, einmitt þegar hann er að reyna að standa vörð um nýsköpun í landinu. Við erum öll sammála um að þetta er gott mál og þarft og það er bara í ljósi mjög erfiðrar stöðu ríkissjóðs sem við getum ekki lagt meira í þetta en gert hefur verið. Við erum að verja nýsköpun í landinu þannig að vel verði að henni staðið. Það er ekki verið að draga úr.