143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að það þarf líka að hugsa um litlu fyrirtækin í þessu. Kerfið er ekki fullkomið, ég varð þess til dæmis áskynja hjá tækniþróunarfyrirtæki á ferðum mínum um landið í haust að það kvartaði yfir því að það er lágmark í kerfinu upp á 1 milljón, en það er oft verið að þróa merkilega hluti sem kosta minna. Þeir komu þar með þá ágætu hugmynd að þeir gætu mögulega fengið tryggingagjald endurgreitt eða eitthvað slíkt fyrir starfsmenn sem færu í slíkt verkefni. Mér þykir það mjög sniðug hugmynd og skal deila henni með hv. þingmanni. Við gætum sameinast um að koma með slíka breytingartillögu til að auðvelda litlu fyrirtækjunum aðgang að tækni. Það ætti ekki að kosta ríkið mikið en gæti skapað svigrúm.

Hitt eru svo bara hringrök. Ef sjávarútvegurinn er að borga meira en nokkru sinni fyrr og sýna meiri arð en nokkru sinni fyrr, er það ekki sönnun þess að veiðigjaldakerfi okkar var mjög skynsamlegt og að það var algjörlega óskynsamlegt að vinda ofan af sérstaka veiðigjaldinu (Forseti hringir.) með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn gerði í sumar?