143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég held að það sé óhjákvæmilegt. Nú man ég að reiknað var með uppbyggingu á Bakka í áætluninni á næsta ári. Það var stóra fjárfestingin á næsta ári, síðan á seinni hlutanum átti að fara að gæta áhrifa frá Helguvík. Ég held að ríkisstjórnin verði að fara að hugsa sinn gang. Hún er núna að veikja mjög möguleika okkar til að byggja á þekkingar- og tæknigreinum. Hún er búin að ákveða það að loka vaxtarmöguleikum í sjávarútvegi og landbúnaði með því að hætta við aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Ekki verður hægt að auka framleiðslu í landbúnaði og vinna ný lönd á mörkuðum í Evrópu og ekki verður hægt að auka virði í vinnslu uppsjávarafurða ef við náum ekki aðild að Evrópusambandinu og losnum við 15–20% tolla á öllum sjávartegundum.

Ef vaxtartækifærin eiga ekki að verða til í sjávarútvegi og landbúnaði og ekki heldur í þekkingargreinunum og engin stóriðjufjárfesting verður, hvar eiga nýju störfin að verða til hjá þessari ríkisstjórn? Eða er þetta bara (Forseti hringir.) spurning um svartnættið eitt?