143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í upphafi þessarar umræðu beindi ég fyrirspurnum til framsögumanns nefndarálitsins um forsendur fjárlaganna sem ekki tókst að fá svör við en ég sé að sem betur fer er hæstv. fjármálaráðherra kominn til umræðunnar og ástæða til þess að þakka honum að verða við beiðni um það, við getum kannski skipst á orðum um þessi efni hér á eftir. En ég vildi þó nota tækifærið og fá að inna hv. þm. Steingrím J. Sigfússon eftir því hvort það hafi komið fram í umfjöllun um forsendur fjárlaga, einkanlega um þjóðhagsspána frá Hagstofunni, hversu þungt Helguvíkuráformin vega í áætlunum fyrir næsta ár og síðan fyrir 2015 og 2016, og hvort það hafi mikil áhrif á fjárlög næsta árs hvernig fer um það verkefni og ekki síst á áætlunina í ríkisfjármálum fyrir 2015 og 2016.

Hitt sem ég innti hv. þm. Pétur H. Blöndal eftir og fékk ekki svör við en hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kann ef til vill deili á er að ég sé að ríkisstjórnin ráðgerir nú að verðlagsbreytingar verði ekki 3% eins og við framlagningu frumvarpsins heldur 3,6%. Þá spyr maður auðvitað um persónuafsláttinn af því að hann á að fylgja verðlagi. Í frumvarpinu eins og það kom fram hækkaði hann um 3% í samræmi við verðlagsforsendur eins og þær voru þá. Ef þær eru núna breyttar hefur þá persónuafslátturinn verið hækkaður til samræmis við það þannig að hann rýrni ekki í meðförum þingsins?