143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:49]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að það verði sest vel yfir fjárfestingarspána og þjóðhagsspána í ljósi nýjustu frétta af þeim einföldu ástæðum að svarið er því miður já, í spá Hagstofunnar vegur aukin stóriðjufjárfesting mjög þungt. Ef kemur þar stórt skarð í, þ.e. það sem Hagstofan kallar Helguvík eða ígildi hennar kemur ekki — ja, þá er vonandi fjárfestingin á Bakka að vísu eftir en þar er þó enn staða mála þannig að ESA hefur ekki enn afgreitt þá skoðun á ívilnunarsamningi og öðru slíku sem þar er. Veikleikinn liggur í því að meðal annars vegna ákvörðunar ríkisstjórnar nú mun opinber fjárfesting ekkert leggja til aukins hagvaxtar á næsta ári, það er alveg ljóst. Þeir eru að skera það frekar niður en hitt frá árinu í ár þannig að samneyslan mun hafa kælandi áhrif á hagkerfið á næsta ári og ekki ýta undir fjárfestingu. Það er alveg víst. Nema þá ef vera skyldi að skuldatillögurnar skrúfuðu eitthvað upp á móti í aukinni eftirspurn og einkaneyslu.

Þetta er því mjög brothætt, mjög veikt. Helguvík var ætlað að vega mjög þungt á síðari hluta ársins 2014 og síðan að vera í hámarki 2015 og 2016. Nú er staðan þannig að framkvæmdum er að ljúka við Búðarhálsvirkjun og dregið hefur mjög úr umfangi allra framkvæmda í Straumsvík. Það er þannig ekki margt af þeirri stærðargráðu að það vegi þarna verulega inn.

Varðandi persónufrádráttinn er þær gleðifréttir að segja að sem betur fer lögfestum við það snemma á síðasta kjörtímabili að persónufrádráttur er verðtryggður. Hann skal taka hækkun milli ára og auglýsast af ráðuneytinu fyrir áramót og upphaf staðgreiðsluárs og það er í 67. gr. tekjuskattslaga, ef ég man rétt, alveg fortakslaust. Þannig að það gerist sjálfkrafa að persónufrádrátturinn verður hækkaður um verðlagsbreytingar (Forseti hringir.) milli ára núna fyrir áramótin næstkomandi.