143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það á væntanlega eftir að gera ráð fyrir því í sjálfu sér. Verði verðlagsuppfærslan hærri og verðbólgan eða breyting launavísitölunnar, frekar en neysluverðsvísitalan að ég held, hærri milli ára en menn gerðu ráð fyrir þegar þeir lögðu frumvarpið fram þá er talan röng sem þar kemur fram, persónufrádrátturinn verður þá eitthvað meira en 48 þúsund og eitthvað krónur á mánuði eins og menn voru að giska á að hann yrði.

Í sjálfu sér á það ekki endilega að hafa áhrif að því tilskildu að laun og tekjur fylgi upp í sama takti. Þá helst breytan á báðar hliðar óbreytt, þá á persónufrádrátturinn í sjálfu sér ekki að kosta meira enda sé það þannig að þessir hlutir þróist í sama takti með hliðsjón af verðlagi. Væntanlega er þessi tala þá of lág miðað við það sem í stefnir með verðlagsþróun.

Til að svara þessu með eldsneytisgjöldin, nei, það voru kannski ekki miklar umræður um þetta, aðeins var þetta þó rifjað upp. Ég man margar heitar ræður hér og tillögur á síðasta kjörtímabili þegar bensínverð og olíuverð var á svipuðum slóðum og það er í dag, um að það ætti að stórlækka það, það væri verið að drepa alla með þessum bensíngjöldum. En nú er annað uppi, nú er hér ekki lagt til að hreyfa neitt við þessu. Þó vottar fyrir örlitlu samviskubiti einhvers staðar vegna þess að í nefndaráliti meiri hlutans er svolítið vandræðalegt orðalag um að þetta sé nú ekki eins tilfinnanlegt og ella vegna þess að innkaupsverð á bensíni hafi heldur lækkað. Þannig er það afgreitt.