143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:55]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að beina spurningu til hv. þingmanns um annað en fyrst hæstv. fjármálaráðherra er kominn hingað, og ég vil taka undir með mönnum og þakka honum að bregðast fljótt við og koma hér, vil ég kannski færa í tal aftur það sem við vorum að ræða áðan, sem eru hagvaxtarforsendurnar og verðlagsforsendur fjárlaganna.

Hv. þingmaður rakti það sem rétt er að gengið hefur mjög hægt að fá afgreitt mál er varða PCC frá Eftirlitsstofnun EFTA þannig að því miður eru litlar horfur á að gæti einhverra þjóðhagslegra áhrifa af Bakka á fyrri hluta næsta árs. Ég held að hversu áhugasöm sem við erum um viðgang þess verkefnis séu því miður frekar litlar horfur á að það verði eitthvað mikið sem gerist þar á fyrri hluta árs. Ég vil heyra hvort hv. þingmaður er sammála mér í því mati.

Ef það eru engin áhrif af Helguvík á seinni hluta ársins og við erum í fyrsta lagi að horfa á einhver áhrif af Bakka á seinni hluta næsta árs, hvaða áhrif hefur það á hagvaxtarþróunina og umgjörðina og hlýtur þetta ekki að kalla á einhvers konar endurmat ríkisstjórnarinnar á sínu uppleggi?