143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður orðaði þetta ágætlega með hin ónotakenndu viðbrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart fjárfestingaráætlun Mér hefur stundum fundist að það væri þannig að menn grétu það dálítið núna, vítt og breitt um land, þegar mönnum hafði tekist að koma góðum þjóðþrifaverkefnum inn í þessa fjárfestingaráætlun eða sóknaráætlun landshluta, því að það virtist vera sjálfstætt markmið ríkisstjórnarinnar í haust að slá hvort tveggja af, eins og þessir tveir merkimiðar dygðu til þess að ryðja burt hverju einasta þjóðþrifaverkefni sem á vegi þeirra varð. Að því leyti tek ég undir með hv. þingmanni að manni fannst maður verða var við eins og mjög hart flokkspólitískt viðbragð gagnvart þessum verkefnum einfaldlega vegna þess hver þau voru, vegna þess hvernig þau höfðu verið sett fram og vegna þess að þau höfðu verið kynnt sem valkostur við stöðnunarstefnu núverandi stjórnarflokka í atvinnumálum.

Ég er sammála hv. þingmanni en mundi kannski vilja beina til hans spurningunni: Hverjir af þáttunum sem við erum að fást við núna mundi hann halda að væru best til þess fallnir að vega upp á móti, hratt og örugglega, á næsta ári? Væri það að snúa við niðurskurðinum í rannsóknarsjóðina? Væru það einstakar afmarkaðar opinberar framkvæmdir? Hvað telur hann út frá reynslu sinni og þekkingu á fjárfestingaráætluninni og því sem við höfum tilbúið af plönum, því að auðvitað er þetta bara spurning um ákvörðun? Það er hægt að ráðast í flest þessi verkefni með nokkurra daga fyrirvara því að undirbúningur hefur allur verið unninn og bíður hérna til dæmis gríðarleg hola íslenskra fræða austur á Melum ef menn mundu vilja vinna eitthvað í henni. Hvaða verkefni mundi hann telja að væru best til þess (Forseti hringir.) fallin að grípa til hratt til þess að ná hámarksárangri við þessar erfiðu aðstæður?