143. löggjafarþing — 35. fundur,  12. des. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:26]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Mér fannst hún endurspegla nákvæmlega þá nauðung sem við erum alltaf sett í. Gengið er út frá því að verðbólgan verði bara alltaf og við séum þá alltaf árlega að hækka gjöld.

Ef svo er, ef við ætlum ekkert að gera í óstöðugleikanum á Íslandi og ætlum ekkert að gera í allt of hárri verðbólgu, þá er auðvitað skynsamlegt að hækka jafnt og þétt, já. En við þurfum líka að stunda einhverja hagstjórn, er það ekki? Sveitarfélögin hafa til dæmis verið að hugsa þetta undanfarið og þau ákveða að fara ekki í veigamiklar gjaldskrárhækkanir, t.d. á leikskólum, meðal annars til að liðka fyrir kjarasamningum. Það er ákveðin hagstjórn. Okkur býðst að gera þetta líka, við gætum sagt: Við ætlum að halda aftur af verðbólgu núna. Sérstaklega í ljósi þess ef menn ætla að fara í það að lækka verðtryggðar skuldir heimilanna, þá væri nú skynsamlegt að hækka þær ekki á meðan með hinni hendinni. Þetta eru allt spurningar um ákvarðanir.

Svo hef ég líka verið að segja, og við í Bjartri framtíð, að við verðum einfaldlega að ráðast að rót vandans á einhverjum tímapunkti, sem er gjaldmiðillinn, einhæft atvinnulíf (Forseti hringir.) og ákveðin lausatök í ríkisfjármálum.